Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Verið velkomin á pólska menningarhátíð!
Fimmtudagur 8. nóvember 2018 kl. 11:54

Verið velkomin á pólska menningarhátíð!

Í fyrsta sinn verður nú pólsk menningarhátíð í Reykjanesbæ þar sem íbúum gefst tækifæri til þess að kynnast menningu íbúa af pólskum uppruna næstkomandi laugardag.

Erlendir ríkisborgarar eru nú um fjórðungur allra íbúa Reykjanesbæjar og eru um 60% þeirra með pólskt ríkisfang. Það fer því vel á því að íbúar fái þetta tækifæri og að pólskir Reykjanesbæingar fái tækifæri til að rækta sína menningu og kynna hana fyrir öðrum. Þjóðhátíðardagur Póllands er 11. nóvember og í ár eru liðin 100 ár frá því að ríkið öðlaðist sjálfstæði að nýju. Því lá beint við að Reykjanesbær stæði fyrir viðburði tengdum Póllandi og pólskri menningu í samstarfi við pólska íbúa sveitarfélagsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanesbær hefur sett sér markmið um að auka félagslega þátttöku íbúa af erlendum uppruna. Jafnframt hefur verið sett markmið um að skapa vettvang fyrir persónuleg tengsl og vináttu allra íbúa.

Skipulagt af íbúum

Hópur íbúa Reykjanesbæjar af pólskum uppruna hefur komið að skipulagi viðburðarins og stefnir allt í að hann verði hinn glæsilegasti. Bókasafnið verður undirlagt af fróðleik og skemmtun í þeirra boði. Pólskir munir, búningar og myndbönd, meira að segja pólskur hermannabúningur frá þeim tíma sem Pólverjar börðust fyrir sjálfstæði sínu.

Nokkrir hafa tekið að sér eldamennsku í samstarfi við Ráðhúskaffi Reykjanesbæjar og verða þjóðlegir réttir í boði fyrir alla sem heimsækja Bókasafnið þennan dag. Bigos er pottréttur sem allir nefndu að væri skilyrði fyrir hátíð sem þessa, pólskar pylsur, kökur og Prins Póló.

Velvild og styrkir

Ánægjulegt hefur verið hversu vel skipuleggjendum hátíðarinnar hefur verið tekið alls staðar. Hvar sem ég kem og ræði hátíðina mætir mér gleði og eftirvænting, hvort sem viðmælendur mínir eru af pólskum, íslenskum eða öðrum uppruna.

Tónlistarskólinn tók beiðninni fagnandi og verkefninu af miklum metnaði. Leitað var til fyrirtækja og stéttarfélaga á svæðinu eftir styrkjum og samstarfi og er skemmst frá því að segja að þau voru öll tilbúin til þess að styrkja hátíðina og hafa gert mögulegt að standa fyrir þessum glæsilega viðburði. Reykjanesbær þakkar Isavia, Airport Associates, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, Verslunarmannafélagi Suðurnesja, Félagi iðn- og tæknigreina, Mini Market og Kjötpól fyrir þeirra framlag til dagsins.  

Bókasafnið orðið að samfélagslegum suðupotti sveitarfélagsins

Bókasafnið og þar með Ráðhúsið er orðið að samfélagslegum suðupotti í sveitarfélaginu. Þar er fullt út úr dyrum á hverjum viðburðinum á fætur öðrum. Það kom því ekki annað til greina en að hafa viðburðinn á Bókasafninu og kynna þá um leið það flotta starf sem þar er unnið.

100 árin

Það er skemmtileg staðreynd að bæði Pólland og Ísland hafi náð áföngum tengdu frelsi sama árið, þ.e. að 100 ára sjálfstæðisafmæli Póllands sé eins nálægt 100 ára fullveldisafmælis Íslands og raunin er. Þessar þjóðir háðu sömu baráttuna á sama tíma á ólíkan hátt og uppskáru ólíkar niðurstöður. Þó þá niðurstöðu að frelsið var aukið. Ríkin hafa unnið saman í gegnum árin, vinskapur hefur myndast og er ærið tilefni til þess að styrkja tengsl íbúa Reykjanesbæjar enn frekar, óháð uppruna.

Til hamingju

Á hátíðinni gefst kjörið tækifæri til þess að kynnast menningu stórs hluta íbúa Reykjanesbæjar af pólskum uppruna sem áður hefur ekki verið mögulegt. Vonin er sú að samfélagsleg þátttaka fólks af erlendum uppruna aukist og að fólk verði enn jákvæðara í garð fjölmenningarsamfélagsins en það er nú þegar.

Hamingjan, gleðin og vináttan – það er tilgangurinn.

Til hamingju með þjóðhátíðardag Póllands, til hamingju með þessa flottu hátíð sem framundan er, til hamingju Reykjanesbær með gott fjölmenningarsamfélag og til hamingju öll með 100 ára afmælið.

Eins og slagorð hátíðarinnar segir:

Viðburðurinn gleður augu, eyru og maga!

Sjáumst,

Hilma Hólmfríður

Verkefnastjóri fjölmenningarmála