Aðsent

Var almannafé best varið í hlutafjáraukningu Keilis?
Miðvikudagur 30. desember 2020 kl. 16:00

Var almannafé best varið í hlutafjáraukningu Keilis?

Rekstur Keilis Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs sem staðsett er að Ásbrú í Reykjanesbæ er tryggður að því er virðist vera  til að minnsta kosti þriggja ára þar sem ríkið hefur samþykkt að setja 190 m.kr í hlutafé gegn því að sveitarfélögin kæmu með 180 m.kr. sem þau hafa samþykkt. Þá mun ríkið einnig styrkja skólann um 80 m.kr á ári næstu þrjú árin, samtals mun því styrkur frá ríkinu hljóða uppá 430 m.kr.

Þegar stórt er spurt virðist fátt um svör á svo sannarlega við í þessu máli. Undirrituð hefur frá því málið kom upp í byrjun árs, fyrir landris og heimsfaraldur, óskað eftir frekari gögnum, betri útskýringum og velt ýmsum spurningum upp. Þeirra á meðal hvort „rekstri skólans sé borgið til framtíðar þrátt fyrir mikið streymi fjármagns frá ríki og sveitarfélögum á svæðinu?“ Hvar er rekstraráætlun skólans? Ítrekað kom fram að það þyrfti að verja störf Suðurnesjamanna en aldrei kom fram hversu margir starfsmenn Keilis greiða útsvar sitt til Suðurnesja. Ef þetta er hluti af viðspyrnu til atvinnumála á Suðurnesjum, var öllum þessum hundruðum milljóna best borgið í þessu verkefni? Spyr sá sem ekki hefur séð nein gögn sem benda til þess og var yfirhöfuð farið í einhverja greiningavinnu varðandi þessi mál?

Málið tók miklum breytingum frá því að það var lagt á borð fyrir sveitarstjórnarmenn í upphafi árs og þar til kosið var um það í bæjarráði nú í desember en það sama er ekki hægt að segja um upplýsingarnar sem fylgja málinu, þær voru alltaf jafn rýrar þrátt fyrir spurningar. Málið hefur fengið mikla uppfjöllun í bæjarráði sem og bæjarstjórn Grindavíkur og það vekur furðu mína að meirihlutinn studdur af S-lista og U-lista skuli hafa samþykkt að setja tæpar 23 milljónir í verkefni sem þeir sáu aldrei rekstraráætlun eða aðra útreikninga um. Eina sem virðist hafa hangið á samþykki þeirra var að ríkið er að koma að borðinu og þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera.

Vonandi munu þær hundruðir milljóna sem ríki og sveitarfélögin ætla að verja til skólans strax á nýju ári sem og fjárframlög ríkisins til næstu þriggja ára nýtast skólanum sem best svo rekstri hans verði borgið til langrar framtíðar þó að engum gögnum hafi verið framvísað sem gefi tilefni til að ætla að svo verði.

Óska Suðurnesjamönnum gleðilegrar hátíðar og vona að árið 2021 færi ykkur öllum gæfu, gleði og kærleika.

Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir

Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík