Nettó
Nettó

Aðsent

Uppbygging og ábyrg fjármálastjórn
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 23:24

Uppbygging og ábyrg fjármálastjórn

Í Sveitarfélaginu Vogum búa um 1270 manns.  Við sjáum fram á mikla fjölgun íbúa hér á næstu árum og er það spennandi verkefni að takast á við. Við í E listanum erum búin að vinna hörðum höndum að 10 ára áætlun sem snýr að uppbyggingarmálum í sveitarfélaginu. Þessi vinna nær til aukinna tekna sem og aukins kostnaðar við rekstur stærra sveitarfélags sem og íbúasamsetningar. Meðal annars verður að gæta að því að innviðir eins og grunnskóli, leikskóli og félagsþjónusta fylgi auknum fjölda íbúa.
 
E listinn hefur verið í meirihluta allt þetta kjörtímabil sem senn er að ljúka. Við höfum rekið sveitarfélagið hallalaust allt kjörtímabilið og stefnum á að halda áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili. Það er ekki síst áskorun að halda vel um fjárhaginn í góðu árferði eins og slæmu og stunda ábyrga fjármálastjórn. E listinn lækkaði fasteignagjöld fyrir árið 2018 og munum við halda áfram á þeirri braut. Við munum lækka leikskólagjöld og koma þannig til móts við barnafólk í sveitarfélaginu og ætlum einnig að hækka aldursviðmið  vegna frístundastyrks barna úr 16 ára í 18 ára. Við munum koma á heilsustyrk til handa eldri borgurum og standa áfram vörð um það öfluga starf sem er hjá eldri borgurum í Sveitarfélaginu Vogum. Við styðjum einnig heilshugar umsókn Reykjanesbæjar um fjölgun hjúkrunarrýma á Nesvöllum sem nýtast mun öllum íbúum Suðurnesja.
 
Við í E listanum höfum talað fyrir því að einstaklingsframtakið sé mikilvægt til að tækifæri og framsækni verði í samfélaginu.  Það viljum við styrkja og styðja. Mikið hefur verið talað um höfnina, að hana megi á margan hátt bæta.  Geta má þess að einstaklingar í Vogum hafa nýlega stofnað ferðaþjónustufyrirtæki og hyggjast gera út frá höfninni. Því fögnum við og styðjum. Vonandi stöndumst við þeirra væntingar, og samfélagsins okkar í þeim efnum.
 
Kæri íbúi Sveitarfélagsins Voga, ég hvet þig til að nýta kosningaréttin og setja x við E á kjördag.
 
Ingþór Guðmundsson 
Oddviti E listans í Sveitarfélaginu Vogum
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs