Aðsent

Umferðarsultuþreyta
Fimmtudagur 3. október 2019 kl. 07:29

Umferðarsultuþreyta

Fátt hefur verið meira í umræðunni undanfarið en umferðaþunginn á annatíma í Reykjavík og er það fyrir löngu orðið að þjóðhagslegu vandamáli. Mikið hefur breyst frá því ég var aðeins yngri, bjó í Keflavík og sótti háskóla og síðar vinnu í Reykjavík. Þrátt fyrir að Reykjanesbrautin hafi hvorki verið tvöföld né upplýst á þeim tíma,  tók það mig svipaðan tíma að komast til og frá Keflavík í vesturbæ Reykjavíkur eins og það tekur mig í dag að komast 8 km vegalengd, frá Garðabæ í miðbæ Reykjavíkur á annatíma. Það er augljóslega eitthvað ekki í lagi varðandi umferðina í Reykjavík. Þetta er ekki aðeins bundið við Reykjanesbrautina, heldur líka allar aðrar stofnbrautir til og frá Reykjavík. Íbúar nærliggjandi sveitarfélaga eru daglega í gíslingu umferðaröngþveitis Reykjavíkurborgar og hafa verið í mörg ár.

Útskýringarnar á þessari auknu umferð eru í sjálfu sér einfaldar. Fleiri Íslendingar á fleiri bílum, fleiri ferðamenn á fleiri bílum, fullt af rútum, fullt af hótelum, fullt af skólum með aukna ásókn, uppbygging Landspítala, þétting byggðar í hjarta borgarinnar, stórar opinberar stofnanir, fleiri fyrirtæki – allt í hjarta borgarinnar. Frekar augljóst.

Public deli
Public deli

Á sama tíma hefur svo gott sem ekkert verið gert til að greiða fyrir bílaumferð. Aðgerðir Reykjavíkurborgar hafa einna helst falist í þeirri forsjárhyggju að fá fólk til að hætta að nota einkabíla og nota þess í stað almenningssamgöngur eða að hjóla í vinnuna. Allt voða huggulegt og krúttlegt en vandamálið er að einkabíllinn er og verður alltaf fyrsti valkosturinn. Íslendingar eru sjálfstæðir í hjarta sínu og einkabíllinn er framlenging af sjálfstæði okkar. Við notum ekki strætó eftir að við erum komin með bílpróf og hjólreiðar eru innanhúss­íþrótt helminginn af árinu.

Nú virðist hafa orðið einhver vakning hjá hinu opinbera um þetta samgönguvandamál og litið hefur dagsins ljós samgöngusáttmáli sem á að laga umferðarsultuna til og frá Reykavík á aðeins fimmtán árum. Geggjað! Þetta verður orðið þolanlegt rétt áður en maður fer á eftirlaun. Forsjárhyggja er auðvitað nauðsynleg en það þarf að laga vandamálið strax.

Með því að líta til þess að einkabíllinn er fyrsta val flestra og með því að greiða fyrir umferð hans þá leysast vandamál almenningssamgangna í leiðinni og við getum sparað 50 milljarða (sem verða líklega 150 milljarðar) með því að sleppa þessari umtöluðu Borgarlínu. Þetta er ekki flókið, nokkur mislæg gatnamót, breikkun stofnbrauta um eina akgrein og flutningur Landsspítalans, Landsbankans og annarra mannmargra ríkisstofnana úr miðbænum. Setjum svo fasteignirnar og lóðirnar á sölu og komum út í plús í staðinn fyrir að almenningur borgi 60 milljarða í auknum álögum. Verst að geta ekki kosið í henni Reykjavík sem heldur mér daglega í umferðargíslingu.