Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Um áramót
Mánudagur 4. janúar 2021 kl. 10:38

Um áramót

Nú er hið ótrúlega ár 2020 að renna sitt skeið á enda.  Fyrir ári síðan grunaði engan hvað í vændum var og almennt var talið bjart framundan við síðustu áramót.  Árið byrjaði reyndar með miklum óveðrum víða um landið og það var óvenju snjóþungt í Suðurnesjabæ í upphafi ársins.  Óveðrin gengu yfir og snjóa leysti, en í janúar fór jörð að hristast á Reykjanesi og urðu margir öflugir jarðskjálftar nærri Grindavík en sem betur fer gekk það yfir án frekari náttúruhamfara.  Þess í stað skullu á hamfarir sem enginn sá fyrir og hafa haft áður óþekkt áhrif á alla heimsbyggðina.  Heimsfaraldur kórónuveiru lagðist yfir og covid-19 smit fóru að greinast á Íslandi í lok febrúar.  Faraldurinn ágerðist hratt og fljótlega í mars var ljóst að virkja þurfti viðbragðsáætlanir almannavarna og allt fór úr fyrri skorðum.  Í kjölfarið fylgdi meðal annars að fjöldi fólks hefur misst atvinnu og nú í lok ársins 2020 er fjöldi atvinnulausra á Suðurnesjum slíkur að annað eins hefur ekki þekkst áður.

Í mars var aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar virkjuð og hóf að vinna eftir viðbragðsáætlun.  Aðgerðastjórnin var að störfum daglega fyrstu vikurnar, þar sem meðal annars þurfti að endurskipuleggja allt skólastarf í leik-og grunnskólum út frá þeim reglum og leiðbeiningum sem gefnar voru út af heilbrigðisráðherra, sóttvarnalækni og almannavörnum.  Á sama hátt þurfti að endurskipuleggja margt í starfsemi sveitarfélagsins út frá sömu forsendum.  Starfsfólk og stjórnendur hjá sveitarfélaginu skiluðu frábæru verki og var ánægjulegt að upplifa samtakamáttinn  og hve allir voru tilbúnir til þess að leysa úr öllum málum sem upp komu, allt í þágu þess að halda uppi þjónustu og starfsemi, gæta að öryggi íbúanna og fylgja eftir sóttvarnareglum. Þegar leið að sumarbyrjun hafði tekist að ná tökum á faraldrinum og slakað var á þeim íþyngjandi aðgerðum sem höfðu staðið frá því í mars. 

Sumartíminn var mörgum ánægjulegur, Íslendingar ferðuðust innanlands og fengu notið landsins í allri sinni dýrð.  Í lok sumars náði faraldurinn aftur flugi og herða þurfti allar sóttvarnareglur á ný.  Síðustu mánuði ársins hafa svipaðar sóttvarnareglur og samkomutakmarkanir verið í gildi og var fyrri hluta ársins.  Fyrir nokkrum dögum urðu kaflaskil í baráttunni gegn veirunni, þegar byrjað var að bólusetja einstaklinga gegn covid-19.  Baráttunni er þó ekki lokið, en við getum horft með bjartsýni til nánustu framtíðar vegna tilkomu bóluefna.  Þó verðum við að hafa þann fyrirvara á að víða erlendis geysar faraldurinn og það mun hafa áhrif á okkar hagsmuni. Við verðum því að gera ráð fyrir að gæta vel að sóttvörnum áfram því veiran er ekki að yfirgefa okkur á næstu mánuðum.

Þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru og þau áhrif sem orðið hafa á Íslandi og í okkar nánasta umhverfi hefur margt annað átt sér stað á árinu 2020 og margt jákvætt gengið fram.

Nú undir lok árs 2020 eru íbúar Suðurnesjabæjar 3.650.  Um síðustu áramót voru íbúarnir 3.588 talsins og hefur þeim því fjölgað um 62 á árinu. Suðurnesjabær hóf starfsemi þann 10. júní 2018, eftir sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs.  Á þeim tímapunkti voru íbúar sveitarfélagsins 3.450 og hefur því fjölgað um 200, eða 5,8% frá því Suðurnesjabær varð til.  Mikill kraftur hefur verið í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og er fyrir séð að íbúum Suðurnesjabæjar muni áfram fjölga á næsta ári. 

Eins og áður hefur komið fram hefur covid-19 faraldurinn haft mikil áhrif á ýmsum sviðum.  Ef litið er til rekstrar Suðurnesjabæjar, þá hafa tekjur dregist mikið saman frá því sem áætlað var í upphafi ársins og munar þar yfir 200 mkr.. Ýmis útgjöld sem rekja má til faraldursins hafa aukist og er rekstrarleg afkoma á þessu ári því mun verri en áætlað var.  Áætlanir fyrir árið 2021 taka sömuleiðis mið af mikilli óvissu og neikvæðum efnahagslegum áhrifum faraldursins.  Það er því ljóst að faraldurinn mun hafa mikil neikvæð áhrif á rekstrarafkomu Suðurnesjabæjar þessi tvö ár. Á sama tíma er lögð áhersla á að ekki sé dregið úr þjónustu við íbúana.  Gert er ráð fyrir að hagurinn vænkist eftir 2021, sem er þó háð þeirri miklu óvissu um hvernig og hvenær faraldurinn gengur yfir. Mikilvægast í því sambandi er að hjól atvinnulífsins nái sem fyrst góðum snúningi þannig að sem flestir einstaklingar sem því miður búa við atvinnuleysi um þessi áramót komist sem fyrst til starfa á ný.

Þrátt fyrir efnahagslegan samdrátt og neikvæða niðurstöðu rekstrar hefur Suðurnesjabær unnið að ýmsum framkvæmdum og fjárfestingum árið 2020 og svo verður einnig árið 2021.  Þá er sömuleiðis mikið fjármagn lagt í ýmislegt viðhald eigna sveitarfélagsins.  Meðal helstu framkvæmda á árinu 2020 má nefna að í haustbyrjun var nýr göngu-og hjólreiðastígur milli Garðs og Sandgerðis vígður af grunnskólanemendum sem tóku hann fyrst allra formlega í notkun með litahlaupi.  Stígurinn er mjög vel heppnaður, með lýsingu og bundnu slitlagi og  hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hve íbúarnir hafa nýtt þessa góðu aðstöðu til útiveru og samgangna síðustu mánuði.  Þótt svo stígurinn sé vel heppnaður og innan við 5 km langur, þá má ekki síður líta á hann með táknrænum hætti því hann tengir saman tvö byggðarlög sem sameinuðustu í eitt sveitarfélag fyrir tveimur og hálfu ári síðan.

Á árinu hófust framkvæmdir við viðbyggingu við Gerðaskóla og mun þeirri framkvæmd ljúka á árinu 2021.  Um er að ræða tímabærar aðgerðir til að bæta aðstöðu og auka kennslurými í skólanum, en nemendum hefur fjölgað undanfarin misseri. Þá má nefna að unnið hefur verið að uppbyggingu í nýjum íbúðahverfum, ásamt framkvæmdum við fráveitu að nýju íbúðahverfi í Sandgerði.  Mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðalóðum og er verið að mæta henni með auknu lóðaframboði.  Undir haustið var lokið við dýpkun undir löndunarkrönum í Sandgerðishöfn og sú framkvæmd hefur þegar sannað sig með bættri aðstöðu fyrir fiskiskip sem landa í höfninni.  Auk framangreindra framkvæmda hefur verið unnið að ýmsum minni verkefnum, sem horfa ekki síður til framfara en þau stærri.

Samkomutakmarkanir hafa haft mikil áhrif á menningarlíf og alls konar samkomuhald.  Fljótlega eftir að faraldurinn var farinn að hafa sín áhrif og sjá mátti fyrir að þau áhrif myndu vara fram eftir árinu var tekin ákvörðun um að aflýsa fyrirhugaðri bæjarhátíð í Suðurnesjabæ.  Þess í stað hafa verið skipulagðir ýmsir minni viðburðir á árinu og þannig leitast við að bjóða íbúum upp á tilbreytingu, skemmtun og menningu. Hér má m.a. nefna opnun bókasafns á laugardögum, heimsókn frá Brúðubílnum, Einari Mikael töframanni og fjölskyldudag á Garðskaga.  Hefur þessu verið vel tekið af íbúum og vonandi verður framhald á með hækkandi sól.  Nýlegt dæmi um annan viðburð, þar sem notast var við fjarskiptatæknina til að deila til íbúanna, er jólaþáttur sem sendur var út á Þorláksmessu í samstarfi við Víkurfréttir.  Í þeim þætti var verðlaunaafhending fyrir jólahús og ljósahús Suðurnesjabæjar 2020, flutt voru tónlistaratriði af frábærum listamönnum í Suðurnesjabæ og fluttur var fróðleikur um Unu Guðmundsdóttur og húsið Sjólyst, sem er í eigu Suðurnesjabæjar.  Undanfarin ár hefur verið unnið að endurbyggingu hússins, í samstarfi við Hollvini Unu og er þeim framkvæmdum nú lokið, en jólaþátturinn var einmitt tekinn upp í húsinu.  

Safnahelgi á Suðurnesjum, sem undanfarin ár hefur verið haldin undir vor í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum og hátíðarhöldum á 17. júní var einnig aflýst.  Til að koma til móts við íbúa fengu þeir heimsókn frá nemendum 10. bekkja skólanna okkar sem buðu þeim í heimsókn á Byggðasafnið á Garðskaga og í Þekkingarsetur Suðurnesja í sumar og var því boði vel tekið. Þá voru jólaljós stærstu jólatrjánna í Suðurnesjabæ tendruð að morgni með nemendum grunnskólanna í stað þess að stórfjölskyldur hittust seinnipart dags við sama tilefni og flugeldasýningar verða í anda bílabíóanna á gamlárskvöld þar sem fólk er hvatt til að forðast hópamyndanir og sitja þess í stað í bílum sínum og njóta. 

Um síðustu áramót stóð yfir alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar.  Listahátíðin stóð yfir fram undir lok janúar og var því nýlokið þegar covid-19 faraldurinn hóf innreið í landið.  Að venju var listahátíðin vel heppnuð og vakti verðskuldaða athygli.  Fjölmargir listamenn víða að úr heiminum tók þátt í hátíðinni með listsköpun, ásamt innlendum listamönnum og heimamönnum.   

Árið 2020 verður örugglega lengi í minnum haft og verður sögulegt ár að mörgu leyti.  Þar ber hæst heimsfaraldur kórónuveirunnar, sem hefur sett allt úr fyrri skorðum og valdið miklum og margvíslegum afleiðingum.  Þá hefur náttúran látið til sín taka, hvort sem litið er til veðurfars, jarðfræðilegra atburða eða ofanflóða. Allt hefur þetta haft mikil efnahagsleg áhrif og ferðalög fólks milli landa hafa nánast lagst af með gríðarlegum áhrifum á ferðaþjónustuna. Einna verstu afleiðingarnar eru þær að mjög margir hafa misst atvinnu, atvinnufyrirtæki hafa ýmist hætt starfsemi eða neyðst til að segja upp starfsfólki vegna tekjuleysis. 

Margt hefur breyst á árinu sem án ef á eftir að hafa varanleg áhrif.  Sem dæmi um það má nefna að í mörgum atvinnugreinum hefur tölvu-og fjarskiptatækni verið hagnýtt, m.a. með fjarfundum og í öðrum samskiptum. Mikil gróska hefur verið í svokölluðum nýjum greinum og í nýsköpun þar sem hagnýting og framþróun í tölvutækni og fjarskiptum hefur leikið aðal hlutverk.  Eitt nýjasta dæmið um það má nefna tæknifyrirtækið Controlant.  Tækni sem það fyrirtæki hefur þróað leikur nú eitt lykilhlutverk í dreifingu bóluefna gegn covid-19 um allan heim. Þá hefur starfsfólk fjölmargra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga lagt sig fram um að mæta aðstæðum með breyttum vinnubrögðum, svo sem fjarvinnu frá heimilum sínum. Loks má nefna hversu jákvætt það var þegar Íslendingar ferðuðust um landið sitt í sumar og nutu þess sem landið, náttúran og ferðaþjónustan bauð upp á. Margir landsmenn endurnýjuðu þannig kynni sín við landið sitt þar sem ekki var mögulegt að ferðast erlendis. Það er von mín að þessara jákvæðu áhrifa gæti áfram.

Sögulega séð hafa gömlu grunn atvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður, oft staðið af sér hallæri og hamfarir.  Svo er einnig nú þegar heimsfaraldur kórónuveiru tröllríður öllu.  Sjávarútvegurinn hefur gengið vel og haldið sinni atvinnustarfsemi í fullum gangi, það á einnig við í Suðurnesjabæ og skiptir miklu máli.  Landbúnaðurinn hefur einnig skilað sínu og landsmenn kunna sannarlega að meta íslenska landbúnaðarframleiðslu.  Báðir þessir atvinnuvegir hafa enn og aftur sannað mikilvægi sitt og gildi.  

Tækifærin koma oft í ljós í erfiðum aðstæðum og það höfum við í Suðurnesjabæ reynt að einblína á síðasta árið. Suðurnesjabær ásamt Isavia, Kadeco, SSS og hinum sveitarfélögunum á Suðurnesjum eiga í samstarfi um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.  Þessir aðilar stóðu fyrir mikilvægum fundi í nóvember þar sem hringrásarhagkerfið var rætt og hugmyndir um fjölmörg verkefni komu upp á yfirborðið. Fjölmargir íbúar og starfsmenn Suðurnesjabæjar tóku þátt í þessum fundi og ljóst er að mikill kraftur býr í okkur. Ef við höldum áfram að vinna saman og látum ekki deigan síga munu góðir hlutir gerast áfram.

Þegar litið er um öxl við lok ársins 2020 má því segja að samhliða áföllum og hamförum höfum við lært margt og á sinn hátt hefur margt jákvætt átt sér stað.  Áramót eru jafnan spennandi tími, þegar eitt ár er kvatt og öðru fagnað. Framundan er spennandi ár sem miklar væntingar eru bundnar við.   

Ég óska íbúum Suðurnesjabæjar og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

Magnús Stefánsson, 
bæjarstjóri Suðurnesjabæjar

(Pistillinn birtist fyrst á vef Suðurnesjabæjar)