Aðsent

Til hamingju Reykjanesbær!
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 15:43

Til hamingju Reykjanesbær!

Kæru íbúar Reykjanesbæjar, dagurinn í dag markar endalok kísiliðnaðar í okkar bæjarfélagi. Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar er staðfestur sá grunur að kísilverið sem nú stendur í Helguvík sé ekki í neinu samræmi við upprunalega kynningu á verkefninu. Sá tími er komin að við krefjumst þess að þessi verksmiðja verði fjarlægð fyrir fullt og allt. Fullnaðarsigur er í sjónamáli ef við fylgjum því fast eftir.

Það eru tveir kostir fyrir Arion banka núna, að selja verksmiðjuna úr landi eða standa í málaferlum þar sem þeir þurfa að borga fyrir niðurrif og förgun á verksmiðjunni því þessi verksmiðja fer ekki aftur í gang á þessum stað. Í kjölfarið þurfum við bæjarbúar að setja strangar reglur um alla ákvarðanatöku er varðar okkar lýðheilsu og að bæjarbúar séu ekki settir í þá stöðu að þurfa að standa gegn okkar eigin bæjarfulltrúum þegar þeir eru að vinna gegn okkar hagsmunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanesbær er bærinn okkar og við eigum að fá að ráða því hvernig við viljum að okkar nærumhverfi sé. Það hefur orðið vitundarvakning í okkar samfélagi og við eigum ekki að vera hrædd við að tjá skoðanir okkar, taka afstöðu eða láta í okkur heyra ef svo ber undir. Að eiga samtal þó svo að skoðanirnar séu ekki alltaf samhljóma. Þannig virkar lýðræðið.

Máttur okkar er mikill ef við stöndum þétt saman og höfum þor til að setja okkar eigin heilsu og bæjarfélag í fyrsta sæti. Það gerði þorri bæjarbúa þegar þeir sáu og fundu að ekki var allt með felldu hvað varðaði kísilver United Silicon í Helguvík.

Byggjum upp heilsusamlegt, umhverfisvænt samfélag því það eru mannréttindi að fá að anda að sér hreinu lofti. Afstaða okkar Pírata hefur alltaf verið skýr: Aldrei aftur mengandi stóriðju í byggð!

Helstu atriði og tengil í skýrsluna er að finna á https://sudurnes.piratar.is/helguvik/

Þórólfur J Dagsson
skipar 1. sæti Pírata í Reykjanesbæ