Aðsent

Þjónusta við hælisleitendur - ábyrgð sveitarfélaga
Föstudagur 30. október 2020 kl. 07:52

Þjónusta við hælisleitendur - ábyrgð sveitarfélaga

Á Íslandi hafa þrjú sveitarfélög gert samning við Útlendingastofnun varðandi þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd (hælisleitendur). Þessi sveitarfélög eru Reykjavíkurborg með 220 einstaklinga, Hafnarfjarðarkaupstaður með 100 einstaklinga og Reykjanesbær með 70 einstaklinga. Útlendingastofnun hefur boðið öðrum sveitarfélagum þjónustusamninga en þau neitað og hefur stofnunin því neyðst til að þjónusta hælisleitendur sjálf, m.a. með leigu íbúða hér í Reykjanesbæ.

Reykjanesbær hefur sinnt hælisleitendum vel skv. umræddum þjónustusamningi og sama má örugglega segja um hin tvö sveitarfélögin. Það virðist sem að misbrestur sé á þjónustu við þá einstaklinga sem Útlendingastofnun hefur ekki náð að semja um og hefur nú óskað eftir því að Reykjanesbær bæti 100 einstaklingum við og þjónusti þá 170 einstaklinga. Óvíst er síðan hversu margir verði í leiguhúsnæði og þjónustað af Útlendingastofnun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ leggjumst alfarið gegn þeirri fjölgun sem óskað er eftir og spyrjum hvar ábyrgð annarra sveitarfélaga liggur? Að okkar mati gætum við tekið á móti og gert þjónustusamning um 100 einstaklinga í heild sinni gegn því skilyrði að Útlendingastofnun samþykki að fleiri hælisleitendur verði ekki hýstir í Reykjanesbæ. Við hvetjum önnur sveitarfélög til að axla einnig ábyrgð í þessum málaflokki. 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Margrét Sanders
Baldur Þ. Guðmundsson
Anna Sigríður Jóhannesdóttir