Nettó
Nettó

Aðsent

Þitt atkvæði skiptir máli
Föstudagur 18. maí 2018 kl. 11:03

Þitt atkvæði skiptir máli

Þegar kemur að kosningum og ungu fólki þá heyrist mest talað um slaka kjörsókn þeirra. Gögn um kjörsókn hafa sýnt að ungt fólk á aldrinum 18-24 ára sé ólíklegast til að skila sér á kjörstað. Ástæður fyrir dræmri kosningaþátttöku hafa verið kannaðar, en þær eru bæði flóknar og margþættar. En eitt er víst og það er að við getum ekki alltaf kennt áhugaleysi ungs fólks um.
 
Það er staðreynd að ungt fólk mætir fordómum. Sumir vilja meina að ungt fólk hafi oft og tíðum ekki unnið neitt að viti, geti ekki tekið ábyrgð, að það sé dónalegt og/eða beri ekki virðingu fyrir hlutum eða jafnvel eldra fólki.
 
Þau sem eru að bjóða sig fram í sveitastjórnakosningum eiga flest sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða fyrir samfélagið sem það býr í. Við viljum öll byggja upp gott samfélag. En ákvarðanir sem eru teknar hafa í rauninni meiri áhrif á ungt fólk og komandi kynslóðir sem munu seinna erfa landið.
 
Ég tel ungt fólk vera tilbúið að taka ábyrgð þegar því er treyst fyrir hlutum sem því finnst vera mikilvægt. En ungt fólk þarf traust. Við þörfnumst þess að almenningur sé opinn fyrir nýjungum, treysti okkur til að koma fram með hugmyndir og treysti okkur til að taka ábyrgð.
 
Þitt atkvæði skiptir máli.
 
Þú getur haft áhrif.
 
Við ætlum að hafa áhrif.
 
Saman skulum við gera góðan bæ betri.
 
Sigríður Etna Marinósdóttir, 
tómstunda- og félagsmálafræðingur og í 3. sæti hjá Rödd unga fólksins.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs