Nettó
Nettó

Aðsent

Stapahverfi er miðja Reykjanesskagans
Mánudagur 25. mars 2019 kl. 06:00

Stapahverfi er miðja Reykjanesskagans

Stapahverfi, sem nær frá Fitjum um Innri-Njarðvík og út á Stapa, er að verða fjölmennasta hverfi í Reykjanesbæ og mín skoðun er sú að Innri-Njarðvík hafi í gegnum tíðina verið sett niður af stjórnendum Ytri-Njarðvíkur og síðan Reykjanesbæjar.

Nú er komið að þeim tímapunkti að ákvarðanir verða teknar um hverfið, til framtíðar, sem skipta meira máli en menn grunar. Ég hvet íbúa til að láta til sín taka og stofna íbúasamtök til að hafa áhrif á þessar ákvarðanir.

Horfum á nokkrar staðreyndir: Stapahverfi verður fjölmennasta hverfi bæjarins innan mjög skamms tíma þó bæjarfulltrúar vilji þétta byggð annars staðar í Reykjanesbæ. Nú hefur íþróttaráði verið falið í samvinnu við íþróttafélögin í bænum að móta framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja. Þetta eru flottir aðilar en staðreyndin er sú að hjarta Íþrótta- og ungmennafélagsins Keflavíkur slær í Holtahverfi og hjarta Ungmennafélag Njarðvíkur slær í Ytri-Njarðvík. Ef vel ætti að vera þá ætti ungt fólk í Stapahverfi að taka sig saman og stofna Íþrótta- og ungmennfélagið Stapa.

Yfir íþróttaráði er síðan bæjarstjórn skipuð afskaplega hæfu fólki en þægindarammi þeirra flestra, eða sjö er í kringum Skólaveg í Keflavík, eitt í Ytri Njarðvík og tvö í Ásahverfi (Fitjahverfi), 0 í Stapahverfi. Íbúar í Keflavík og Ytri-Njarðvík þurfa ekki að sækja neina þjónustu í Stapahverfi í dag en íbúar í Stapahverfi þurfa að sækja nær alla þjónustu til Ytri-Njarðvíkur og Keflavíkur. Þá er ég að tala um bæjarfélagið, ríkið, tryggingarfélög og banka, sjúkrahús og Fjölbrautaskóla, fyrir utan verslanir og matstaði o.fl.

Ég óttast að menn ætli að vera skammsýnir og spara í Stapahverfi og ætli að byggja lítið íþróttahús og litla sundlaug o.fl. í þeim dúr. Horfum til framtíðar, ég sé fyrir mér að í Stapahverfi rísi stærsta  sundlaug á Reykjanesi með rennibrautum og tilheyrandi, jafnvel í samvinnu við Bláa lónið. Þarna rísi stærsta íþróttahús á Reykjanesi og íþróttasvæði með frjálsíþróttaaðstöðu o.fl. Þarna rísi nýr spítali og nýr Fjölbrautaskóli og þangað flytji sjórnsýslan enda horfum við fram á frekari samvinnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og jafnvel frekari sameiningu. Þá yrði Stapahverfi hjartað í Reykjanesborg eða Suðurnesjaborg og jafnvel ástæða til að ræða þessi mál við Vogamenn, Grindvíkinga og Suðurnesjabæinga um að þeir fái að hafa umsögn um skipulagið.

Fyrsta skref er að íbúar í Stapahverfi taki málin í sínar eigin hendur og stofni íbúasamtök og að bæjarstjórn stofni til íbúaþings í Stapahverfi og ræði við íbúana um framtíðina í stað þess að taka einhverjar spariákvarðanir. Áfram Reykjanesbær!

Hjalti Örn Ólason
áhugamaður um skipulagsmál o.fl.

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs