Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

SKÓLASLIT –  stórkostlegt ævintýri
Laugardagur 27. nóvember 2021 kl. 07:42

SKÓLASLIT – stórkostlegt ævintýri

Í upphafi árs 2021 hófu kennsluráðgjafar á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar samtal og vegferð sem heldur betur vatt upp á sig og hafði áhrif á marga í skólasamfélaginu. Samtalinu var haldið áfram við Ævar Þór Benediktsson rithöfund og var verkefni mótað sem við höfðum öll tröllatrú á. Við vorum svo lánsöm að með Ævari Þór fylgdi Ari Yates teiknari og myndskreytir sem setti mark sitt á myndsköpun sögunnar og þá upplifun sem hún veitti. Hópurinn stækkaði og margir voru tilbúnir að taka þátt. Allir grunnskólar Reykjanesbæjar voru með frá fyrstu stundu með Akurskóla í broddi fylkingar. Síðan bættust við grunnskólar Suðurnesjabæjar og Voga ásamt kennsluráðgjafa þeirra, starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar vildi leggja sitt af mörkum og fulltrúar Fjörheima félagsmiðstöðvar gátu ekki beðið eftir því að láta hlutina gerast. Það vildu allir vera með og voru jákvæðir í garð þessa verkefnis. Sótt var um styrk til Sprotasjóðs sem var veittur og vegna þess gátum við farið af stað í þetta stóra og áhugaverða verkefni. Verkefni sem var ólíkt öllu öðru sem við höfum gert undanfarin ár eða hvað? 

Nýstárleg lestrarupplifun

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Markmið verkefnisins var að búa til nýstárlega lestrarupplifun, læra af drengjum, hlusta á þá og fá innsýn í þeirra hugarheim og hugmyndir varðandi nálgun á lestri og öflun og úrvinnslu upplýsinga. Einnig var markmiðið að auka áhuga þeirra á lestri með fjölbreyttri nálgun og áhugahvetjandi og merkingarbærum verkefnum. Auk þess vildum við vinna með viðhorf kennara til drengja og lesturs og opna huga þeirra gagnvart ólíkum leiðum til öflunar upplýsinga og þekkingarsköpunar. Enn fremur vildum við gefa feðrum tækifæri til aukinnar þátttöku í lestrarnámi drengja og kanna viðhorf þeirra til lesturs. 

Ása eða Marteinn?

Við viljum breyta orðræðu um drengi og lestur því þeir geta vel lesið. Við þurfum að hlusta betur á þá og reyna að skilja hvað þarf til þess að fá þá til þátttöku. Þó svo að fókusinn hafi verið á drengi í upphafi þá var verkefnið ætlað öllum nemendum á mið- og unglingastigi grunnskóla sem höfðu áhuga á þessari lestrarupplifun og vildu vera með. Allur októbermánuður var undirlagður af sögunni SKÓLASLIT í grunnskólunum okkar og það var sama hvert litið var þá var greinilegt að efni hennar hafði áhrif og var sjáanlegt í verkum nemenda. Heimilin tóku þátt, nemendur og foreldrar hlustuðu eða lásu saman í upphafi dags eða áttu notalega kvöldstund. Það vildu allir fylgjast með því hvernig sögupersónur Skólaslita tókust á við áskoranir sem þær stóðu fram fyrir enda magnaðist spennan eftir því sem leið á október. Nemendur ræddu söguna sín á milli og spáðu fyrir um framhaldið, myndbönd voru gerð, teikningar litu dagsins ljós en sköpun var allsráðandi í kringum þessa lestrarupplifun. Í skólunum var verið að vinna verkefni í anda sögunnar og sögupersónur lifnuðu við þegar nemendur og kennarar klæddu sig upp í anda Hrekkjavöku. Hver vill ekki klæða sig upp og vera Ása eða Meistarinn á Hrekkjavöku? 

Draugahúsið vinsælt

Í lok mánaðarins sá félagsmiðstöðin Fjörheimar um að undirbúa draugahús á Hrekkjavöku og var öllu til tjaldað. Ungmenni á vegum Fjörheima höfðu veg og vanda að uppsetningu þess og var magnað að sjá allar þær hugmyndir sem fram komu og voru útfærðar til að skapa stemningu í anda Hrekkjavöku. Draugahúsið var opið í þrjá daga í kringum Hrekkjavöku. Húsnæðið, sem er rúmlega fjögur hundruð fermetrar að stærð, var skipt upp í níu svæði og undirlagt af draugagangi. Tvær útfærslur voru á draugahúsinu, annars vegar hefðbundið þar sem var myrkur og hugmyndaflugið réði för og hins vegar þar sem ljósin voru kveikt þannig að þeir sem vildu taka þátt gátu komið án þess að dvelja í myrkrinu. Í heildina fóru um tvö þúsund manns á öllum aldri í gegnum draugahúsið þá daga sem það var opið og meirihluti nemenda miðstigs grunnskóla á svæðinu voru þar á meðal.

Verkfæri til kennara

Áætlaður afrakstur verkefnisins var að færa kennurum verkfæri sem myndu hafa áhrif á lestrarnám drengja og upplifun þeirra. Einnig að skapa lifandi vefsíðu sem segði sögu SKÓLASLITA þar sem áhersla væri lögð á myndræna og lifandi framsetningu þar sem kennarar og nemendur hefðu tækifæri til að deila og miðla hugmyndum sínum og fjölbreyttum afurðum tengdum sögunni. Að lokum að gefin yrði út bók af höfundi sem unnin væri út frá efni lestrarverkefnisins. Eftir samtöl við kennara þá er ekki annað að heyra en að þeir hafi almennt verið mjög ánægðir með hvernig til tókst. Nú þegar höfum við náð flestum þeim markmiðum sem við settum okkur í byrjun. Unnið er að  því að eiga samtöl við nemendur um upplifun þeirra. Við viljum hlusta og læra, æfa okkur og gera þær breytingar sem gera þarf til að auka lestraráhuga og lestrarfærni. Send verður út könnun  til fulltrúa kennara og foreldra til að fá þeirra upplifun af verkefninu því rödd þeirra er mikilvæg. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir getum við gert upp verkefnið fyrir alvöru og fetað leiðina áfram. 

Takk allir sem hjálpuðu

Við erum fyrst og fremst stolt af þessu verkefni og þakklát öllum þeim sem voru með okkur í októbermánuði að fylgjast með Halldóri, Ásu, Arndísi, Pavel, Joönnu, Pétri, Grímu og Meistaranum ásamt Unnari skólastjóra og öllum hinum sögupersónunum í SKÓLASLITUM. Við erum þakklát öllum þeim hundrað grunnskólum sem þátt tóku um allt land og þeim áhugasömu kennurum sem leiddu verkefnið áfram. Takk nemendur, foreldrar og kennarar í Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogum, TAKK Ævar Þór og TeiknAri, takk Fjörheimar, takk Stefanía og starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar. Takk Páll og Víkurfréttir fyrir að vera með okkur í verkefninu og gefa okkur færi á að nýta fjölmiðilinn til að kynna verkefnið. Takk Arnar og RÚV fyrir að veita verkefninu athygli og fjalla um það í Landanum. Takk Þormóður og Sigurbjörg í Akurskóla og allir skólastjórnendur fyrir ykkar þátt því hann var ómetanlegur. Takk Sprotasjóður fyrir að hafa gert okkur þetta mögulegt því þetta verkefni er einstakt. Kærar þakkir til ykkar allra með von um að SKÓLASLIT hafi verið ykkur ánægjuleg lestrarupplifun. Þarna fengum við tækifæri til að fylgjast með sögu í rauntíma því að Ævar Þór og Ari voru að allan mánuðinn og gáfu okkur nýja upplifun á hverjum degi. Auk þess bætti Ævar Þór við upplestri sem varð til þess að allir gátu tekið þátt óháð lestrarfærni, því að stundum er gott að fá að hlusta og njóta. Þetta verkefni var sannkallað ævintýri og samstarfið í kringum SKÓLASLIT var ómetanlegt því allir lögðu sitt af mörkum til að þessi lestrarupplifun yrði að veruleika. Í dag erum við reynslunni ríkari þar sem verkefnið hefur fært okkur ótal áskoranir og tækifæri. Og að lokum spyrja nemendur; verða SKÓLASLIT 2 á næsta ári?

Fyrir hönd stýrihóps SKÓLASLITA:

Kolfinna Njálsdóttir,
verkefnastjóri SKÓLASLITA og deildarstjóri skólaþjónustu Reykjanesbæjar

Heiða Ingólfsdóttir,
kennsluráðgjafi fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar

Anna Hulda Einarsdóttir, kennsluráðgjafi á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar