Max Norhern Light
Max Norhern Light

Aðsent

Skólahreysti mögnuð fjölskylduskemmtun
Mánudagur 6. maí 2019 kl. 08:00

Skólahreysti mögnuð fjölskylduskemmtun

Ungmennaráð í Reykjanesbæ kom í heimsókn fyrir bæjarstjórnafund og flutti mörg áhugaverð erindi. Í einu þeirra kom fram að nú væri komin tími á nýja skólahreystibraut í bænum og nemendur lögðu áherslu á að brautin skipti miklu máli og mikivægi þess að vera hraustur. Ánægjulegt að heyra þau kalla eftir nýrri braut, þá vitum við að þau hafa gaman af því að leika sér úti, það viljum við sjá börn gera í okkar samfélagi. Ég tel mikilvægt að við séum stöðugt með hugann við uppbyggingu á aðstöðu sem hefur jákvæð áhrif á hreyfingu allra, bæði barna, unglinga og fullorðinna þar sem þau finna áskoranir við hæfi og möguleika á að stunda hreyfingu. Hreyfing er lykilatriði fyrir bæði hreyfifærni og hreysti en rannsóknir sýna fram að hreysti er mikilvæg fyrir góða heilsu og vellíðan. Í ár tóku skólarnir í Reykjanesbæ þátt í Skólahreystikeppninni sem fram fór í apríl í Hafnarfirði þar sem skólar frá Suðurlandi kepptu sín á milli. Heiðarskóli komst inn í aðalkeppnina og Holtaskóli einnig því hann var skólinn sem hafði flest stigin í öðru sæti af öllum skólum á landinu en yfir 100 skólar tóku þátt. Það er því fagnaðarefni að tveir grunnskólar af sex í Reykjanesbæ komist inn í aðalkeppnina í ár.

Skólahreystikeppni Íslands hefur verið haldin frá árinu 2005 og Holtaskóli hefur verið sigusælasti skólinn í Skólahreysti og hefur þeirra lið sigrað keppnina fimm sinnum á sex árum frá 2011 til 2016. Heiðarskóli sigraði árið 2014 og eru núverandi meistarar og hafa ungmenni úr Reykjanesbæ sigrað keppnina átta sinnum og telst það er frábær árangur.Verðlaunin sem hafa verið veitt eru peningaverðlaun og oftast er þeim varið í að kaupa tæki og tól fyrir næstu keppni svo hægt sé að halda áfram að æfa af kappi fyrir næstu keppni. Íþróttakennarar eiga hrós skilið fyrir magnaðan árangur og að kveikja áhuga á mikilvægi hreysti. Það er klárt að okkar skólar í Reykjanesbæ eru meðal þeirra fremstu í Skólahreysti keppinni en betur má ef duga skal. Mikilvægt er að við vinnum einnig markvisst að því að virkja fleiri nemendur á sviði hreyfingar og hvetjum öll börn og ungmenni til að prófa skólahreysti eða aðrar íþróttagreinar sem eru í boði í okkar samfélagi, þannig eflum við hreyfingu og bætum heilsu allra barna. Ég vil skora á alla bæjarbúa í Reykjanesbæ til að mæta á úrslitin í Skólahreysti í ár sem haldin verða í Laugardalshöll 8. maí kl. 19:30. Hvetjum þessi frábæru hraustu ungmenni sem lagt hafa á sig miklar æfingar undanfarna mánuði, þetta er mögnuð fjölskylduskemmtun.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir
BA Sálfræði og MBA