Nettó
Nettó

Aðsent

Skemmtilegri Reykjanesbær
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 10:48

Skemmtilegri Reykjanesbær

Síðustu ár hefur verið áberandi umræðan um að „tala bæinn upp” til þess að fá utanbæjarfólk til þess að vilja flytja til Reykjanesbæjar. Nú er staðan sú að enginn er skortur á fólki sem vill og hefur flust til bæjarins. Aðal áskorunin í dag er að halda í fólkið sem hér býr. Það gerum við með því að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu fyrir alla. Ég sjálf hef verið frekar ánægð með þá þjónustu sem bærinn veitir mér og minni fjölskyldu. Það er annað sem mér finnst vanta í Reykjanesbæ. Það er samfélagstilfinningin, að finnast maður tilheyra samfélagi og að það sé skemmtilegt að búa hérna. En hvað geta bæjaryfirvöld gert í því? Jú, við í Beinni leið höfum nokkrar hugmyndir.
 
Reykjanesbær getur boðið upp á vel skipulögð svæði þar sem fólk getur hist, spjallað, notið menningar, stundað hreyfingu og haft gaman. Við sjáum fyrir okkur menningarmiðstöð á reit Fishershúss sem myndi m.a. hýsa Fjölmenningarsetur, bókasafnið, listasmiðjur og kaffihús. Í miðju reitsins yrði torg fyrir gangandi vegfarendur með trjám, bekkjum og gróðri þar sem hægt er að sitja úti á sólríkum dögum. Einnig væri gaman að sjá sundmiðstöðina í Keflavík verða að leikmiðstöð/ævintýraveröld fyrir börn. Sundmiðstöðin býður nú þegar upp á einstakt leiksvæði fyrir börn - Vatnaveröld, sem foreldrar ungra barna víða um land hrósa og gera sér sérstaka ferð til Reykjanesbæjar til að heimsækja. Húsnæðið býður þó upp á rými sem hafa ekki verið í notkun í einhvern tíma. Þessir ónýttu salir geta orðið að skapandi rýmum fyrir börn, þar sem þau fá að leika sér frjálst, með opinn og náttúrulegan efnivið og leikföng sem ýta undir listsköpun og hreyfingu. Sem foreldri tveggja barna undir tveggja ára hef ég tekið sérstaklega eftir því að það vantar afþreyingu innandyra fyrir foreldra með börn á þessum aldri. Við fjölskyldan sækjum mikið í bókasafnið, Vatnaveröld og bakaríin í bænum en þar með eru upptaldir þeir staðir sem við getum eytt tíma saman innandyra og hitt annað fólk.
 
Margir sem hafa búið í litlum og stórum borgum eins og Reykjavík, Kaupmannahöfn eða Berlín kannast við hverfastemningu sem er stór þáttur í daglegu lífi fólks. Við í Beinni leið viljum setja á fót hverfasjóð. Í hann gætu nágrannasamtök sótt styrki til þess að halda viðburði eins og götugrill, fatamarkað eða tónleika. Það myndi styrkja samfélagsleg tengsl íbúa ásamt fleiri stærri viðburðum sem hægt er að halda í bænum. Af hverju er t.d. ekki jólamarkaður á torginu fyrir framan Ráðhúsið eða matarmarkaður einu sinni yfir sumarið? Enn eitt svæðið sem hefur verið illa nýtt í bænum er útivistarsvæðið fyrir ofan Holtin, þar sem flotti vatnstankurinn er. Væri ekki hægt að byggja þar upp útivistarsvæði fyrir fjölskylduna líkt og í Kjarnaskógi á Akureyri? Leggja hjóla- og göngustíga, setja upp áningarstað fyrir fólk í pikk-nikk og öðruvísi rólóvöll fyrir börn með trjádrumbum, aparólu og klifursvæði. Ímyndið ykkur Reykjanesbæ með öllum þessum stöðum sem hægt væri að heimsækja eftir vinnu og skóla. Það eru svo mörg illa nýtt svæði sem bærinn getur skipulagt í þeim tilgangi að efla samfélagsleg tengsl íbúa. Það finnst mér mikilvægt.
 
Valgerður Björk Pálsdóttir 
í 3. sæti hjá Beinni leið
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs