Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Setjum málefni þeirra yngstu og elstu á oddinn
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 19:00

Setjum málefni þeirra yngstu og elstu á oddinn

Rekstrarstaða nýs sameiginlegs sveitarfélags er sterk. Til að nýtt samfélag nái að blómstra er mikilvægt að huga fyrst og fremst að því að grunnþjónustan sé traust. Sem rúmlega 3500 manna sveitarfélag eigum við rétt á því að í okkar byggðarkjarna sé hvíldarinnlögn fyrir aldraða og heilsugæsla fyrir alla íbúa. Við í J-listanum ætlum að þrýsta á ríkið að komið verði til móts við okkar sjálfsögðu kröfur.

Við í J-listanum viljum að biðlistar á leikskólana heyri sögunni til og að hægt verði að taka á móti yngstu börnunum eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur. Því fylgir hagsæld fyrir alla. Til að vinna það verk þarf að fjölga starfsfólki og stækka leikskólana til að geta tekið við öllum. Leikskólann Sólborg í Sandgerði er erfitt að stækka meira en orðið er og því sjáum við fyrir okkur að selja fasteignina Sólheima 1-3 sem var keypt til bráðabirgðanotkunar og byggja stærri leikskóla á nýjum stað sem er þá bæði ungbarnaleikskóli og almennur leikskóli. Þá er hægt að breyta núverandi leikskóla í félagsheimili fyrir unga sem aldna. Þar sem húsið er á milli Miðhúsa og grunnskólans er staðsetningin ákjósanleg.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í Garðinum er mikilvægt að stækka þann leikskóla sem þegar er til og fjölga starfsfólki til að hafa burði til að taka fleiri börn inn. Með því að vera með tvo öfluga stóra leikskóla í sitthvorum þéttbýliskjarnanum minnkum við skutl foreldra á milli, sem væri meira af, ef ungbarnaleikskóli myndi rísa í fjarlægð frá almennum leikskólum.

Kennsla verk- og listgreina í grunnskólum

Lengi hefur verið talað um að auka þurfi vægi verk- og listgreina í grunnskólum. Er það frekar í orði en á borði og hvað er almennt gert í því? Í grunnskólalögum kemur fram að: „nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.“ Í okkar flókna samfélagi nútímans hafa ungmenni mikla þörf fyrir að spreyta sig á verkefnum í fjölbreyttu samhengi. Skólinn þarf að skipuleggja námsumhverfi sem hæfir þessum verkefnum. List- og verkgreinar eru jafnan ekki í boði nema sem valgreinar  á unglingastigi eða kannski sem uppfylling. Það er staðreynd að þessar greinar bjóða upp á margháttaða reynslu og hafa margt fram að færa sem aðrar greinar hafa ekki.

Skapandi listræn ferli geta haft áhrif á allt skólastarf. Bóknámsgreinar eru nauðsynlegar og gefa mikilvægan grunn á svo mörgum sviðum. En það gera list- og verkgreinar líka. Þær gefa nemendum möguleika á að nálgast verkefnin á annan hátt. Vægi þessara greina þarf að aukast í skólastarfinu, það hefur hallað á þau of lengi. Hvernig væri að færa brautakerfið sem er í framhaldsskólum niður á unglingastig grunnskólans. Nemendur gætu kannski valið hönnunar-, myndlistar-, málm- eða trésmíðabraut svo dæmi séu tekin. Þau gætu síðan haldið sínu striki, vel undirbúin í framhaldsskóla. Þessu er varpað fram til umhugsunar. Vægi verk- og listgreina er of lítið í grunnskólum, það er staðreynd. Allir nemendur þurfa að finna nám við sitt hæfi í skólanum sínum svo að þeim líði vel og geti þroskast á jákvæðan hátt á þessum tíu mikilvægu árum.

Við í J-listanum hlökkum til að takast á við þessi verkefni og framkvæma þau.

Fríða Stefánsdóttir og Vitor Hugo Rodrigues Eugenio
3. og 4. sæti J-listans í nýju sameiginlegu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs.