Aðsent

Sannir Keflvíkingar - allir í sömu átt með bros á vör!
Föstudagur 30. október 2020 kl. 08:08

Sannir Keflvíkingar - allir í sömu átt með bros á vör!

Það reynir hraustlega á þolgæði sannra Keflvíkinga þessa dagana! Eftir langt og farsælt keppnistímabil það sem af er, þá eru enn fjórir leikir eftir af Íslandsmótinu sem mun taka okkur alla leið inní veturinn. Af þessum fjórum leikjum eiga stelpurnar okkar eftir einn útileik en strákarnir þrjá, þar af tvo heimaleiki sem verða báðir án áhorfenda.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú ríður á að við Keflvíkingar höldum einbeitingu svo við náum markmiðinu um að tryggja báðum liðunum sæti í efstu deild. Það eru allir að fara í sömu átt með fókusinn á þessu markmiði!

Þetta keppnistímabil hefur að vísu verið einstakt og þá reynir á alla innviði og staðfestu okkar, sem fram til þessa hafa staðist fullkomlega. Það að enda á toppnum eftir svona keppnistímabil mun ekki aðeins skila af sér betri knattspyrnumönnum fyrir framtíðina, heldur einnig betri einstaklingum til að takast á við áskoranir lífsins.

En svona óvenjulegar aðstæður sem þessar hafa haft veruleg áhrif á fjárhaginn. Fram til þessa hefur okkur tekist það fullkomlega að sníða okkur stakk eftir vext en þegar tímabilið er lengt á sama tíma og ekki koma meiri peningar í kassann, þá er ljóst að við þurfum aðstoð til að ná endum saman á þessu ári.

Það sem af er árinu hafa margar af okkar stærstu forsendum um fjáröflun brugðist, eins og t.d. Konu- og herrakvöld, Keflavíkurblaðið, fyrirtækjastyrkir og miðasala á leiki sumarsins svo eitthvað sé nefnt.

Það liggur því í augum uppi að þessar einstöku aðstæður munu skilja deildina eftir í talsverðum halla ef ekki verður brugðist við.

Framundan eru t.d. tveir heimaleikir sem hvorugur munu skila peningum í kassann en þar á meðal er nágrannaslagur við Grindavík sem gjarnan er einn af stærstu leikjum mótsins.

Af þessu tilefni leitar knattspyrnudeild Keflavíkur nú út til sinna stuðningsmanna með ósk um stuðning til þeirra sem eru aflögufærir.

Á næstu dögum verða því sendar út kröfur í heimabanka með valkvæðum greiðslum fyrir ígildi miðaverðs á tvo síðustu heimaleikina, eða kr. 4.000.

Með einlægri ósk förum við fram á það við ykkur að greiða þessa kröfu og sýna Keflavíkurliðunum þannig stuðning ykkar í verki. Það mun hvetja liðin okkar að vita að á bakvið þau er fjöldi stuðningsmanna, þótt þeir megi ekki mæta á leikina.

Sannir Keflvíkingar geta einnig styrkt starfið með hærri fjárhæð, eða ef þessi krafa birtist ekki á heimabankann. Þá er hægt að millifæra beint inn á reikning deildarinnar sem er 121-26-15388, kt. 541094-3269, með skýringunni „Sannur Keflvíkingur“.

Ykkar stuðningur er mikilvægur í vegferð Keflavíkur og ef við höldum staðföst áfram þá styttist biðin eftir því að við förum að færa titla aftur heim til Keflavíkur. Klárum þetta tímabil með stæl og hefjum svo undirbúning að því sem framundan er.

Áfram Keflavík,
f.h. stjórnar knattspyrnudeildar Keflavíkur
Sigurður Garðarsson,
formaður