Nettó
Nettó

Aðsent

Samfélag í sókn
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 10:46

Samfélag í sókn

Reykjanesbær hefur verið í vörn síðan 2006 og gengið hefur á ýmsu. Mikil skuldasöfnun og vandræðagangur fyrri meirihluta settu sveitarfélagið í hálfgert skuldafangelsi. Nýr meirihluti tók því við erfiðu búi. 
 
Mikill tími og vinna fór í stefnumótun sem síðan varð „Sóknin”. Ríkistjórnin stóð ekki með okkur og illa gekk að ná samningum við lífeyrissjóði og fjármálastofnanir. Við stóðum frekar ein í þessu stríði en samstíga bæjarstjórn og frábærir starfsmenn Reykjanesbæjar auðvelduðu sporin. Og nú er ljósið farið að skína á ný vorið 2018.
 
Rekstur sveitarfélagsins hefur tekið stakkaskiptum, tekist hefur að koma böndum á skuldasöfnun og „Sóknin” farin að skila árangri. Mikil og góð samstaða hefur ríkt innan sveitarfélagsins og ber að þakka íbúum fyrir þolinmæði og þrautseigju. 
 
Íbúar njóta árangursins
Við lækkuðum útsvar um 300 milljónir í ár, höfum tryggt gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum, erum að byggja grunnskóla og leikskóla og búið er að tryggja þrjátíu ný hjúkrunarrými fyrir aldraða. Þá höfum við þrefaldað hvatagreiðslur til foreldra og aukið við þjálfarastyrki og styrkjum aldraða í líkamsrækt.
 
Þetta telst ansi góður árangur, sérstaklega þegar miðað er við hvernig staðan var fyrir 4 árum.
 
Nú horfum við til framtíðar, förum rólega og vöndum okkur í hvívetna. Mikilvægt er að stjórn bæjarins verði áfram ábyrg og vönduð en lendi ekki aftur í ruglinu.  Við munum halda áfram „Sókninni” og látum samfélagið njóta árangursins – íbúar Reykjanesbæjar eiga það skilið.
 
Friðjón Einarsson,
oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs