Aðsent

Sæbjúgu, makríll og ufsinn
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 20. júlí 2019 kl. 12:45

Sæbjúgu, makríll og ufsinn

AFLAFRÉTTIR // Gísli Reynisson // [email protected]


Jæja, allir fara í sumarfrí, Víkurfréttir og þar með þessir pistlar. Það var bara fínasta veðurblíða þegar sumarfríið var tekið. Ekki þó alveg hjá mér. Þegar þessi pistill er skrifaður þá er ég staddur í Berunesi, svo til beint á móti Djúpavogi á Austurlandi.

Djúpavogur á ansi mikla tengingu við Suðurnes, aðalega þó í gegnum Vísi ehf. í Grindavík, sem rak fiskvinnslu í bænum í nokkur ár. Einnig var Stakkavík ehf. með beitningaaðstöðu á Djúpavogi árið 2013, um sumarið og fram á haustið.

Ég sjálfur vann þá hjá Stakkavík ehf. og var á Djúpavogi allt sumarið 2013 við þessa beitningaðstöðu sem ég svo til rak og stjórnaði. Ansi skemmtilegur tími fyrir utan þessa bölvuðu Austfjarðaþoku, sem hímdi ansi marga daga yfir Djúpavogi.

Næsti bær við Djúpavog til suðurs er Hornafjörður og þar er núna bátur sem Suðurnesjamenn þekkta nokkuð vel, Hvanney SF, sem var smíðaður fyrst sem Happasæll KE en er núna kominn með nafnið Sigurfari GK 138 og er því á leið suður. Gamli Sigurfari GK er því á sölu og hugsanlega fer hann til Þorlákshafnar þó það sé ekki orðið staðfest.

Og þá erum við komin suður og kanski eins og margir hafa tekið eftir þá er makríllinn mættur í Faxaflóann og veiðar byrjaðar við Keflavíkurhöfn, bæði af bryggjunni sjálfri frá fólki og líka frá bátum.

Fyrsti báturinn sem landaði afla var Fjóla GK sem kom með 8,6 tonn í einni löndun. Annar bátur er líka kominn á veiðar og er það Sunna Rós SH. Þó er nokkuð merkilegt að ekki fleiri bátar séu komnir á þessar veiðar.

Það er vel þekkt yfir sumartímann að ufsinn getur gefið sig ansi vel á svæðinu í kringum Eldey og þá aðalega hjá handfærabátunum. Núna í sumar þá hafa þrír bátar stundað handfæraveiðar á ufsa og hefur þeim öllum gengið vel.

Núna í júlí þá hefur t.d. Tjúlla GK ,sem er ekki nema um 11 tonna bátur, landað 18,4 tonnum í þremur róðrum og mest 7,8 tonn í róðri sem er fullfermi hjá bátnum. Margrét SU, sem er eikarbátur, hefur líkað mokveitt og landað núna í júlí 14,2 tonnum í aðeins tveimur róðrum og mest 7,4 tonn í róðri. Síðan er það Ragnar Alfreðs GK sem Róbert Georgsson er skipstjóri á. Ragnar Alfreðs GK hefur um árabil verið sá smábátur sem hefur landað mestum afla af ufsa á hverju fiskveiðiári og núna í júlí hefur báturinn landað 20,4 tonnum í aðeins tveimur róðrum og mest 10,3 tonn í róðri. Það má geta þess að síðasta löndun bátsins uppá rúm 10 tonn var aðeins eftir 21 klukkutíma höfn í höfn.

Fyrst talað er um ufsann þá er Grímsnes GK að hefja veiðar aftur núna eftir sumarstopp en báturinn mun byrja á því að eltast við ufsann, en sá eltingarleikur hefur gengið feikilega vel hjá þeim á Grímsnesi GK og til marks um það þá var Grímsnes GK aflahæstur allra netabáta á Íslandi árið 2018 með tæp 1800 tonna afla.

Erling KE er kominn á veiðar og vekur það nokkra athygli en hann hefur landað 12,6 tonnum í tveimur róðrum í Sandgerði. Þar er líka Sunna Líf GK sem er með 14 tonn í sjö og mest 6,2 tonn í róðri af skötusel sem vekur nokkra athygli.

Mikil floti af sæbjúgnabátum er búinn að vera við veiðar skammt undan Garðskaga og hafa flestir bátanna landað í Sandgerði sem og í Keflavík. Friðrik Sigurðsson ÁR er með 150 tonn í 11 róðrum og mest 20 tonn. Þristur BA 47 tonn í sjö og Sæfari ÁR 35 tonn í fjórum, báðir að landa í Sandgerði. Allavega, makrílinn er mættur og því má loksins búast við smá lífi í Keflavíkurhöfn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024