Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Rótarýklúbbur Keflavíkur
Fimmtudagur 14. febrúar 2019 kl. 00:00

Rótarýklúbbur Keflavíkur

-hefur starfað að fjölda góðgerðamála á Suðurnesjum - Saga klúbbsins í stuttu máli

Rótarýklúbbur Keflavíkur (RK) er sjötti rótarýklúbburinn sem stofnaður var hér á landi 2. nóvember 1945. Stofnfélagar voru sautján og eru allir látnir. Í dag eru 31 félagi í klúbbnum, sjö konur og 24 karlar.

Á Íslandi eru nú 32 rótarýklúbbar og félagar alls um 1.300. Á heimsvísu eru um 35.000 rótarýklúbbar og félagar um 1,2 milljónir. Starf rótarýs fer fyrst og fremst fram í klúbbunum, öflug og kraftmikil alþjóðarótarýhreyfing og viðgangur hennar byggist á klúbbstarfinu.

Public deli
Public deli

Starfið í rótarýklúbbi byggist í grunninn á vikulegum fundum allt árið. Þessi mikla fundartíðni hefur í seinni tíð verið þröskuldur sem margur vænlegur félagi hefur átt erfitt með að stíga yfir. Því hafa klúbbar nú nokkuð frjálsari hendur með fyrirkomulag og fjölda funda. Við félagar í RK fundum áfram vikulega en fellum niður fundi frá 15. desember til 15. janúar og frá 15. júní til 15. ágúst eða í þrjá mánuði á ári. Þá er krafa um lágmarksmætingu 50%.

Fundir eru haldnir á fimmtudögum frá kl. 18:30 til 20:00. Fundarformið er nokkuð fast og nánast alltaf  borðaður kvöldverður. Gefinn er góður tíma til að spjalla við félagana en haldið nokkuð fast í að fundi ljúki kl. 20:00. Tvennt hefur fylgt klúbbstarfinu lengi. Þegar félagar mæta á fundarstað heilsast þeir með handabandi og við setningu fundar er skálað fyrir ættjörðinni í vatni. Lögð er áhersla á að fundir séu léttir, skemmtilegir og fróðlegir. Félagar skipta á milli sín að fá góðan gest á fund sem ræðumann. Gegnum árin höfum við fengið fjölda af frábærum ræðumönnum með fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg erindi. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, hefur sagt að að vera í rótarý sé svipað og vera í skóla svo mikið hafi hún fræðst um marga hluti sem hún vissi annars ekkert um.

Rótarýfélagi er fulltrúi sinnar starfsgreinar í klúbbnum. Félögum ber að kynni sig og sitt starf a.m.k. einu sinni á klúbbfundi. Oft bjóða þeir, ef tök eru á, félögum á sinn vinnustað. Þá koma stundum gestir á fund með stutt erindi og síðan er farið í kynnisferð á vinnustað þeirra eða þá að fundir eru haldnir á vinnustað viðkomandi. Af og til förum við í heimsóknir í aðra klúbba og aðrir rótarýfélagar koma einnig í heimsókn til okkar.

Við förum nánast árlega og stundum oftar ásamt mökum og/eða börnum í styttri eða lengri ferðir. Oftast innanlands en nokkrar utanlandferðir hafa einnig verið farnar.  Þáttaka í slíkum ferðum telst til mætingar á fundi.

Rótarýklúbbar á tilgreindum svæðum/löndum mynda umdæmi sem stýrt er af umdæmisstjóra. Ísland er eitt umdæmi. Fjórir félagar í RK hafa gengt starfi umdæmisstjóra. Þeir eru Alfreð Gíslason og Jóhann Pétursson sem eru látnir, Ómar Steindórsson og Guðmundur Björnsson.

Krabbameinsfélag Keflavíkur (nú Krabbameinsfélag Suðurnesja KS) var stofnað af félögum í RK og hefur klúbburinn ætíð átt félaga í stjórn félagsins. Klúbburinn er verndari KS.

RK stóð fyrir stofnun bókasafns við sjúkrahúsið. Nónvarðan var draumur Helga S. Jónssonar félaga okkar og klúbburinn ákvað að taka að sér sem verkefni og gerði myndarlega. Nónvarðan er nú í umsjá Reykjanesbæjar. Við höfum unnið að skógrækt bæði inni við Seltjörn og í seinni tíð hér fyrir ofan bæinn, uppi við Rósaselstjarnir. Þangað er farið árlega á vorin, gróðursett, borið á og snyrt.

Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur starfað að fjölda góðgerðamála allt fá stofnun hans og veitt einstaklingum, félögum og fleirum fjölmarga styrki. Sem dæmi má nefna Krabbameinsfélag Suðurnesja, Björgin - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja, Nes íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum, Velferðarsjóður Suðurnesja, HSS hvíldar- og endurhæfingardeild og Keflavíkurkirkja orgelsjóður og vegna viðgerða á kirkjuklukkunni.

Þá hefur klúbburinn á seinni árum tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum ásamt öðrum klúbbum hér á landi.

Æskulýðsstarf Rótarýhreyfingarinnar og Rótarýs á Íslandi er umfangsmikið og hefur klúbburinn tekið þátt í því.

Guðmundur Björnsson,
félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur