Aðsent

Ræðið við okkur kennara líka
Föstudagur 26. nóvember 2021 kl. 07:45

Ræðið við okkur kennara líka

Svar við hugmyndinni um að rífa Myllubakkaskóla sem kom fram í grein sem birtist á vef Víkurfrétta laugardaginn 20. nóvember 2021.

Í ár kom í ljós að mygla hefur greinst í Myllubakkaskóla. Strax var gripið til aðgerða til að tryggja að kennsla og skólastarf gæti haldið áfram. Kennsla og skólastarf fer nú fram um víðan völl innan Reykjanesbæjar og er ekki beinlínis bætandi fyrir umhverfi nemenda né starfsumhverfi starfsmanna. Þetta ástand er mjög slítandi og með öllu óásættanlegt bæði fyrir nemendur, kennara og stjórnendur Myllubakkaskóla. Spurningin er hvenær kennarar og nemendur geti séð fram á það að kennsla og starf fari aftur í eðlilegt horf undir sama þaki. 

Hugmyndir um að rífa Myllubakkaskóla og færa starfsemi hans annað, til dæmis með því að sameina hann við Holtaskóla, láta byggja nýtt húsnæði fyrir Fjölbrautaskóla uppi á Ásbrú eða byggja nýjan skóla eru alls ekki slæmar EN hvernig verður tryggt að sveitarfélagið eða ríkið ráðstafi fé í slíkt?

Í haust var vígð ný og glæsileg viðbygging við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ferlið sjálft var langt og krafðist mikillar vinnu og undirbúnings. Slíkt telst kannski eðlilegt en mig langar að spyrja hvort það teljist í lagi að kennarar, nemendur og stjórnendur Myllubakkaskóla þurfi að bíða eftir nýju skólahúsnæði í  nokkur ár? 

Hugmyndin um að sameina Myllubakkaskóla við Holtaskóla mun hugsanlega leiða til þess að hóparnir stækki eða gæti leitt til uppsagna kennara ef á versta veg fer. Stærri hópar geta verið vandamál þar sem álag á kennara eykst og minni tími gefst til að veita nemendum þá aðstoð sem þeir þurfa. Námsöryggi nemenda og vellíðan kennara í starfi þarf að vera í brennidepli og að mínu mati er ekki nægileg áhersla lögð á það í hugleiðingum sem birtust í grein um framtíð Myllubakkaskóla á vef Víkurfrétta. 

Hins vegar finnst mér mjög jákvætt að það sé verið að hugsa í lausnum og auðvitað þarf að stuðla að uppbyggingu skóla- og menntakerfisins, íþróttasamfélagsins og ekki síður að skólaumhverfið standi undir nútímakröfum í Reykjanesbæ. En er ekki löngu orðið tímabært að láta slíkar umræður fara fram á vettvangi þar sem helstu hagsmunaaðilar geta komið skoðunum, hugmyndum og áhyggjum sínum á framfæri?

Umræðan um hvort eigi að rífa Myllubakkaskóla, sameina hann við til dæmis Holtaskóla eða færa hann í húsnæði Fjölbrautar er mjög mikilvæg. Hún á hins vegar að fara fram þar sem kennarar, skólastjórnendur, bæjarbúar og sveitarstjórn sitja við sama borð. 

Kennarar eiga að hafa aðkomu að því hvernig starfsumhverfi þeir vilja vinna í. Rödd kennara er mjög mikilvæg og þess vegna skora ég á sveitastjórn að íhuga mögulegar lausnir vel og vandlega. Takið samtalið við kennarana og hlustið á þá. Þvílík reynsla, kunnátta og hæfni er hjá kennurum og það er að mínu mati kominn tími til að hlustað verði á okkur þegar er verið að ræða um starf, menntun og vinnuumhverfi okkar óháð skólastigum. Því er ég viss um að vilji og áhugi sé til staðar hjá kennurum um að ræða og skoða málin í sameiningu. 

Simon Cramer Larsen
Framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, formaður skólamálanefndar Félags framhaldsskólakennara og frambjóðandi til embættis varaformanns Kennarasambands Íslands.