Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Námsárangur í grunnskólum í  Reykjanesbæ
Mánudagur 8. mars 2021 kl. 06:54

Námsárangur í grunnskólum í Reykjanesbæ

Á fundi fræðsluráðs í janúar lagði ég fram tillögu um að gerð yrði úrbótaáætlun um bættan námsárangur í grunnskólum Reykjanesbæjar. Sviðstjóri fræðslusviðs tók saman fimm fagleg og góð verkefni sem snúa að bættum námsárangri barna. Sum snúa að nemendum af erlendu bergi brotnu sem eru núna um 26% nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar, önnur snéru að því að efla kennara og stjórnendur í starfi og fleiri verkefni voru um læsi og þar á meðal spennandi lestrarverkefni sem nokkrar stofnanir taka þátt í.

Allt eru þetta áhugaverð verkefni sem snúa að því að bæta námsárangur en ekki má gleyma nemendum sem gengur mjög vel í skóla, að þau fái námsefni við hæfi til að koma í veg fyrir skólaleiða. Skólarnir verða að leggja áherslu á gott samstarf við heimilin og huga ávallt að því að efla samstarf við foreldra en ég tel að það sé lykillinn af góðum námsárangri og vellíðan nemenda. Í Aðalnámskrá grunnskólanna kemur fram að velferð barna og farsæld námsframvinda byggist ekki síst á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna og gæti þeirra hagsmuna. Mikilvægt er að upplýsingar milli heimilis og skóla og samráð kennara og foreldra um nám og kennslu er mikilvæg forsenda fyrir árangursríku skólastarfi. Skólarnir bera ábyrgð á að slíkt samstarf komist á og því sé viðhaldið alla skólagöngu barnsins. Virk hlutdeild og þátttaka foreldra í námi og starfi barna sinna er forsenda þess að foreldrar axla þá ábyrgð sem þeir bera  á farsælu uppeldi og menntun barna sinna. Foreldrar eru alls ekki allir með á hreinu hvernig námsmatið virkar og sérstaklega ekki þegar sumir skólar eru hættir að gefa lokaeinkunnir að vori en nemandinn á að fá lokaeinkunn eftir 10. bekk og hún mun gilda sem inntökuskilyrði í framhaldsskóla

Skólarnir hafa vissulega mikið um það að segja hvaða kannanir og skimanir eru lagðar fyrir nemendum en samkvæmt Mennta- og menningamálaráðuneytinu taka flestallir nemendur samræmd próf í grunnskóla. Prófin hafa breyst á síðustu árum og eru núna rafræn og íslenskuprófið felst mest í að meta lesskilning. Nú eru um 34% drengja og 19% stúlkna sem ná ekki hæfniviðmiði á 2. þrepi í lestri og teljast því ekki búa yfir grunnhæfni í lesskilning eftir grunnskóla og er þetta mikið áhyggjuefni. Þetta þýðir að þessir nemendur búa við skert tækifæri í lífinu. Fyrir um tíu árum síðan gekk nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar ekki mjög vel í samræmdum prófum og vildum við gera betur til að ná landsmeðaltal í íslensku, stærðfræði og ensku. Samfélagið tók höndum saman og lagðar voru fram nýjar áherslur og framtíðarsýn í menntamálum þar sem áherslan var á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum. Í framtíðarsýninni var lögð áhersla á þau tækifæri sem gefast á fyrstu árum barna í skólakerfinu og mikilvægi þess að hefja markvissa þjálfun snemma. Markviss kennsla og þjálfun í lestri og stærðfræði hefst strax þegar börn byrja í leikskóla. Markmiðið með markvissri kennslu í leikskóla er að mennta nemendur, undirbúa þá undir lífið og um leið að efla þá svo þeir ráði betur við þau krefjandi verkefni sem þeir þurfa að takast á við þegar komið er í grunnskóla. Í grunnskólunum er lögð rík áhersla á að börn nái tökum á undirstöðufærni í lestri og stærðfræði. Samfélagið náði að rífa námsárangur upp og varð það samstarfsverkefni allra. Samstarf heimilis og skóla er lykilinn að góðum námsárangri og vellíðan nemenda í skólum. Virkjum samstarfið og náum betri námsárangri og ánægju allra nemenda, kennara og foreldra.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
varamaður í fræðsluráði
og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.