Nettó
Nettó

Aðsent

Minning um Sundhöll
Sunnudagur 9. september 2018 kl. 12:00

Minning um Sundhöll

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Ég er döpur. Örlög Sundhallarinnar eru sennilega ráðin og baráttan töpuð. Þetta er sorgleg staðreynd, en við sem stóðum þessa vakt getum alla vega stolt sagt að við börðumst fram á síðustu stundu. Skömmin er mikil og hún er bæjaryfirvalda. Það mun aldrei gleymast

Ég hef verið spurð að því af hverju okkur er svona umhugað um þessa gömlu Sundhöll - er þetta ekki bara eitt hús, gamalt drasl sem lokið hefur hlutverki sínu og engu máli skiptir?

Nei, þetta er svo miklu miklu meira.

Þetta snýst um bæinn okkar og söguna og hvernig við ætlum að miðla henni til komandi kynslóða. Gamli bærinn okkar í Keflavík, Duus húsin, Gamla Búð og Fischershúsið eru sannkölluð bæjarprýði sem laða til sín gesti og gangandi. Fyrsta kaflann í sögu kauptúnsins sem nú er orðinn stór bær má lesa út úr þessum gömlu, fallegu húsum sem bæði einstaklingar og sveitarfélagið hafa sýnt metnað í að gera upp og viðhalda. Mér finnst dýrmætt að geta gengið þarna um með syni mína, og sagt þeim sögur af forfeðrum okkar sem byggðu þennan bæ og bjuggu og versluðu í þessum fallegu húsum.

Svo göngum við eftir strandleiðinni og margoft hef ég sagt þeim söguna af Sundhöllinni og sundlauginni sem bæjarbúar söfnuðu fyrir og byggðu sjálfir, allt niður í 8 ára börn. Hversu stoltir bæjarbúar höfðu verið þegar sundlaugin var vígð og svo síðar þegar glæsilega byggingin sem Guðjón Samúelsson teiknaði var tekin í notkun. Þessi bygging tengir kynslóðirnar saman og þetta svæði er næsti kaflinn í sögu bæjarins.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að taka ákvörðun um niðurrif á einu sögufrægasta húsi bæjarins án þess að nokkur heildarsýn hvað svæðið varðar liggi fyrir. Á öll atvinnusagan við Vatnsnesið að hverfa - er þetta allt bara gamalt drasl? Þvílíkt metnaðarleysi.

Það eina sem við vitum er að það stendur til að byggja 300 íbúðir í stórum blokkum við strandlengjuna. Einsleita háhýsabyggð sem ryður því gamla í burt fyrir því nýja. Ótrúleg skammsýni.

En svo snýst þetta ekki bara um Sundhöllina eina. Hvað með næsta sögufræga hús sem nær því ekki að verða 100 ára og einhverjum finnst ljótt og byggingarfyrirtæki kaupir fyrir slikk?

Eigandi hússins sem keypti Sundhöllina fyrir einu og hálfu ári fyrir tæplega 40 milljónir hlær alla leiðina í bankann. Þetta var besti díllinn sem hann hefur gert og ekki skrýtið að hann sæki málið fast. Fjörtíu milljónirnar hans eru nefnilega orðnar að 729 milljónum samkvæmt verðmati sem hann leggur til grundvallar skaðabótakröfu sem hann hótar að leggja fram ef húsið verður friðað. Sæmileg ávöxtun það.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnast þessi útdeiling almannagæða  umhugsunarverð og raunar óhugnarleg. En skýrir samt svo margt.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs