Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Aðsent

Menntasóðaskapur og sóun
Mánudagur 26. nóvember 2018 kl. 21:00

Menntasóðaskapur og sóun

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur

Í fréttum RÚV í vikunni var viðtal við áfangastjóra Menntaskólans á Ísafirði. Skólinn vill einbeita sér að því að gera betur fyrir þau ungmenni sem voru í hópi kvótaflóttamanna sem settust að á Ísafirði í mars síðastliðnum.  Ég er að flestu leyti sammála þessu og vildi óska að við gætum gert svo mikið meira fyrir þá flóttamenn sem setjast hér að. Ég er hins vegar mjög hugsi yfir stefnunni í menntamálum á Íslandi í þessu samhengi.

Glöggt er gests augað og heimskt er heimaalið barn. Ég á talsvert af vinum sem hafa búið erlendis með sínar fjölskyldur og verið hluti af skólasamfélagi barna sinna. Við flutning aftur heim til Íslands er mesta sjokkið fólgið í skólakerfinu okkar, hversu aftarlega við erum á merinni miðað við skóla í öðrum vestrænum þjóðfélögum. Niðurstöður PISA-kannana 2012 og 2015 staðfesta þetta. Þar eru íslenskir nemendur töluvert á eftir jafnöldrum sínum í OECD-ríkjunum í öllum þremur prófgreinunum; lestri, stærðfræði og náttúruvísindum.  

Aftur að fréttinni á RÚV. Áfangastjóri skólans vill bjóða upp á móðurmálskennslu á tungumáli þeirra flóttamanna sem setjast að í bænum. Ofsalega hljótum við að vera vel í stakk búin fyrst við gætum nýtt peninginn í menntakerfinu til að þjóna þessum hópi á þennan hátt. Nú eru eflaust einhverjir búnir að setja mig í flokk með þeim sem eru á móti innflytjendum. Ég er bara alls ekki þar. Ég er að setja út á það í hvað er verið að verja sköttunum okkur.

Þetta sýnir ákveðinn skort á markvissri stefnu í menntamálum á Íslandi. Það er umhugsunarvert að hver og einn menntaskóli virðist vinna að sinni stefnumótun, án samræmis við það fjármagn sem í boði er eða í takti við aðra skóla.

Varðandi þetta tiltekna dæmi, af hverju viljum við að flóttamenn fái kennslu í sínu móðurmáli ef viðkomandi aðilar eru komnir með fasta búsetu á Íslandi? Af hverju eiga þeir peningar að koma úr vasa okkar skattgreiðenda? Við erum með mikið af stærri vandamálum í skólakerfinu okkar. Væri ekki betra ef fjármagnið nýttist til þess að koma til móts við alla í skólanum en ekki bara þann fámenna hóp sem telja flóttamenn og vilja halda móðurmálinu sínu við? Svo maður tali ekki um kjör kennara, sem er annar kapítuli út af fyrir sig.

Hvernig væri svo að halda upp á 100 ára fullveldisafmælið með því að hætta að kenna dönsku á Íslandi? Stórsnjallt ef þú spyrð mig.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs