Aðsent

Menning og máttur
Miðvikudagur 23. maí 2018 kl. 13:20

Menning og máttur

Menning er eitthvað sem við getum öll tengt við og álítum mikilvægt málefni en menning í víðum skilningi er allt sem við gerum til að þroskast. 
 
Ég segi auðvitað að menntun og menning sé máttur hvers manns. Ef þú er þroskaður einstaklingur með góða menntun eru þér allir vegir færir. Þess vegna eru menning og menntun eitt af mikilvægustu málefnunum sem við ættum að hugsa vel um.
 
Vinstri græn hafna markaðsvæðingu menntunar og stefna að gjaldfrjálsri menntun; leikskóla, skólamáltíðum og frístundastarfi á vegum sveitarfélaganna. Gjaldheimta fyrir menntun stuðlar að misskiptingu og hefur mikil áhrif á lífskjör og aðstæður barnafjölskyldna. Við stefnum að leikskólaplássi um leið og fæðingarorlofi lýkur og samhliða lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Það er mjög mikilvægt að hlúa að kjörum kennara, starfsaðstöðu þeirra og nemenda.
 
Menntun er eitt af grundvallarmannréttindum samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna, menntun eflir gagnrýna hugsun, eykur nýsköpun og þroskar fólk.
 
Í öllum blómlegum byggðum verður að vera fjölbreytt menningarlíf og það er hlutverk sveitarfélaganna að skapa þessar aðstæður og tækifæri. Að efla og styðja við listafólk og skapandi greinar og gefa þeim aðstöðu til að geta stundað menningu og listir glæðir sveitarfélögin lífi og gerir þau eftirsóknarverð til búsetu og heimsókna. Í Reykjanesbæ ætti að vera starfræktur myndlistarskóli fyrir skólastigin upp að framhaldsskóla og alla aldurshópa til örva skapandi hugsun og þroska sjónræna athygli. Það á líka að efla listgreinar í skólum þær hjálpa okkur að virkja skynfæri okkar og hafa áhrif á ímyndunaraflið og við lærum að sjá það sem við hefðum annars ekki komið auga á . Markmið allrar menntunar er að auka hæfni og þroska nemenda í gegnum starf þeirra og reynslu sem hjálpar þeim að skapa og skynja.
 
Söfnin okkar eiga að hafa sérstakan stað í hjarta bæjarbúa, það á að vera ókeypis að fara í þau enda eign bæjarbúa. Það þarf að efla safnfræðslu, bjóða grunnskólanemendum regulega í safnfræðslu og elstu árgöngum leikskólanna. Bæjarbúar verða að fá þessa tengingu við söfnin sín og söguna til að skilja mikilvægi þess og að vera stolt af því hver við erum og hvað við eigum. Við erum með allt sem bæði erlendir og innlendir ferðamenn vilja sjá hér á Suðurnesjum, söfn á heimsmælikvarða, sundlaugar, villta náttúru, fuglalíf, útivistarsvæði (sem reyndar mætti bæta mun meira og efla þ.a.l. lýðheilsu og hreyfingu) en okkur sárvantar tjaldsvæði. Ég myndi líka vilja sjá samstillt átak allra flokka og meira samtal um að fá fleiri ferðamenn til okkar og er ég viss um að með þessum leiðum getum við laðað að fleira fólk.
Góðar stundir
 
Gunnhildur Þórðardóttir myndlistarmaður
Á lista Vinstri grænna og óháðra
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs