Aðsent

Með sögu af Suðurnesjum
Laugardagur 29. júní 2019 kl. 14:00

Með sögu af Suðurnesjum

Og þessi indæla veðurblíða heldur áfram og draumur að vera úti á sléttum sjó í þessari blíðu. Um þessar mundir eru flestir bátanna sem róa frá Sandgerði og Grindavík að róa á handfærum og mest eru þetta minni bátar. En þó ekki allir, því að í Sandgerði hafa tveir bátar verið að róa á handfærum og eltast við ufsann og óhætt að segja að það hafi gengið vel. Þetta eru Margrét SU, sem er eikarbátur og hefur landað 14,3 tonnum í þremur róðrum í júní og mest 6,2 tonn í róðri, hinn er þekktur bátur að nafni Ragnar Alfreðs GK og hefur landað 18,3 tonnum í þremur róðrum, mest 7,8 tonn í róðri.

Aðeins að öðru. Síðasti pistill sem ég skrifaði var bara, að mér fannst, ekkert svo merkilegur, bara smá um bátanna sem voru í slippnum í Njarðvík. En aldrei bjóst ég við þeim viðbrögðum sem ég fékk. Ansi margir sendu mér skilaboð um ábendingar varðandi bátana og það sem inn í húsinu var.  

Byrjum á því sem er inn í stóra húsinu. Þar er Sævík GK, plastbáturinn sem áður hét Óli Gísla GK, en verið að lengja bátinn. Hinn er Saxhamar SH, fallegur, grænn bátur frá Rifi. Verið er að vinna nokkuð í honum, t.d setja á hann nýjan krana og aðrar endurbætur.  Saxhamar SH er mjög þekktur bátur hérna á Suðurnesjum því báturinn var gerður út frá Grindavík í 27 ár, fyrst með nafnið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 og síðan með nafnið Sigurður Þorleifsson GK. 

Einn þeirra sem komu með ábendingar er mikill bátamaður og hefur hann myndað svo til alla báta á Suðurnesjum í tugi ára, Emil Páll, og vil ég þakka honum fyrir ábendingarnar.

Ein af ábendingum Emils sneri af bátnum sem heitir Valbjörn ÍS. Ég sagði í síðasta pistli að hann ætti sér litla sögu á Suðurnesjum, þar fór ég rangt með því báturinn á sér ansi mikla sögu tengda Suðurnesjum, báturinn var nefnilega smíðaður í Njarðvík. Ekki þó hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur, heldur hjá Vélsmiðjunni Herði hf. sem þá var til.

Báturinn kom á flot árið 1984 og hét þá fyrst Haukur Böðvarsson ÍS 847 og var þá báturinn 19,8 metra langur og fimm metra breiður. Báturinn var þá allt öðruvísi en hann er í dag því saga hans er að mestu bundin við Ísafjörð og hefur báturinn farið í gegnum miklar breytingar í gegnum árin.

1998 þá var báturinn lengdur um tæplega tíu metra, upp í 29 metra, og árið 2002 var endurbyggður afturendinn, skipt um aðalvél, gír, skrúfubúnað og ljósavél.  

Haukur Böðvarsson ÍS var smíðaður eins og áður segir hjá Vélsmiðjunni Herði hf. og var þetta stærsti báturinn sem var smíðaður hjá þeirri vélsmiðju. Hann var með skipasmíðanúmerið 2 frá þeirri stöð.

En hvaða bátur var þá með skipasmíðanúmerið 1 hjá Herði hf.?  Já, það er nefnilega nokkuð merkilegt því það var báturinn Hamraborg SH 222 sem var smíðaður árið 1975. Þessi bátur var smíðaður í Sandgerði og er stærsti stálbáturinn sem hefur verið smíðaður í Sandgerði, aðeins nokkrir minni bátar hafa verið smíðaðir þar.

Fyrir þá sem ekki vita hvar þetta var þá er gott að rifja það upp. Þar sem núna eru löndunarkranarir við Norðurgarðinn í Sandgerði, þar hinum megin er stórt grátt hús sem er tómt. Þar áður var bara sjór og þar var klettur eða hamar og þar var Vélsmiðjan Hörður hf. með aðstöðu sína, Hamraborg SH var sjósett bak við norðurgarðinn þar sem núna er landfylling, og faðir minn Reynir Sveinsson á einmitt ansi margar myndir af þeim atburði þegar að Hamraborg SH var sjósettur.

Þessi bátur sem er með skipasmíðanúmer 1 frá Vélsmiðjunni Herði er ennþá til í dag og heitir Jón Hákon BA en hefur ekkert landað afla síðan í ágúst árið 2017.

Já, það má svo sem sanni segja að þessi bátur, Valbjörn ÍS, eigi sér margtfalt meiri sögu hérna á Suðurnesjum en ég skrifað um í síðasta pistli.

Vil ég þakka ykkur kærlega, lesendur, fyrir ábendingarnar en þær sýna mér að þið lesið þessa pistla og fyrir það er ég mikið þakklátur. Minni svo á að Vertíðaruppgjörið 2019–1969 er til sölu hjá mér í síma 7743616.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs