Aðsent

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur- Kostningar*
Föstudagur 25. maí 2018 kl. 09:48

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur- Kostningar*

Næstu helgi göngum við til kosninga.  Allir vonandi á góðri leið með að gera upp hug sinn hvað á að kjósa. Ég hef því miður ekki kosningarétt í Reykjanesbæ, en hef engu að síður mikinn áhuga á því sem er að gerast í bæjarmálum. Stefnumál flokkana sem fara fram fyrir komandi kosningar eru nokkuð áþekk, þrátt fyrir að auðvitað sé alltaf einhver blæbrigðamunur sem skilji flokkana að. Ég hef alltaf upplifað pólitík eins og trúarbrögð. Fólk fylgir oft á tíðum sömu flokkum sama hvað gengur á, nema auðvitað þeir sem fylgja Sigmundi Davíð. Þeir fylgja honum sama hvaða flokki hann kýs að stýra.  En skrif mín snúast ekki um pólitík heldur um stjórnmál þar sem áhugi minn liggur mikið í fyrirtækjarekstri eins og ég hef komið inn á áður í skrifum mínum.

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar þá ákvað nýmyndaður meirihluti að ráða inn faglegan bæjarstjóra í stað þess að efsti maður á lista einhvers þeirra flokka sem hann myndaði tæki það sæti. Að mínu mati var þetta mjög mikilvægt skref í þá átt að skilja stjórnmálin frá pólitíkinni og ná þannig að sameina hug bæjarbúa, óháð og ópólitískt eða eins langt og það nær. Bæjarstjóri skipar auðvitað sama hlutverk í rekstri bæjarins og forstjóri skipar í fyrirtækjarekstri. Hann þarf að vera leiðtogi bæjarbúa óháður flokki og passa upp á að stýra skútunni í rétta átt í þágu heildarinnar.  Þetta var heillaskref fyrir þá flokka sem þá unnu kosningasigur. Tek það fram að ég aðhyllist ekki endilega stefnu þessara flokka sem mynduðu meirihluta, hér er ég eingöngu að tala um mikilvægi þess að ráðinn sé faglegur bæjarstjóri af þeim meirihluta sem fer með sigur í kosningum hverju sinni. Ávöxtur þessarar ákvörðunar var meðal annars að stuttu eftir síðustu kosningar var kynnt til sögunnar sóknaráætlun bæjarins, sem hefur verið leiðarljós í stjórnun bæjarins sl. 4 ár.

Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og ég er ekki að leggja mat á hvernig málum hefur verið háttað að öllu leiti, en vörn var sannarlega snúið í sókn í Reykjanesbæ og það er bjartara yfir en fyrir 4 árum, þrátt fyrir United Silicon skituna. Margt spilar þar inn í.  Efnahagsástand er betra, íbúum hefur fjölgað, ferðaþjónustan sem er hornsteinn atvinnusköpunar á svæðinu er í blóma og þannig mæti lengi telja. Samandregið, megi besti flokkurinn vinna og bera gæfu til að velja sér utanaðkomandi faglegan bæjarstjóra til að halda utan um stjórnmál sveitarfélagsins.

*Kosningar eru auðvitað ekki skrifaðar með t-i. Eingöngu gert til að minna fólk á að það hefur valkosTi og líka til að minna á hvernig orðið er skrifað.

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs