Aðsent

Lóðarleiga, samstaða í bæjarstjórn
Mánudagur 26. apríl 2021 kl. 11:17

Lóðarleiga, samstaða í bæjarstjórn

Fasteignagjöld skiptast m.a. í fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðugjald og fleira.  Hækkun á fasteignagjöldum hefur verið mikil í sveitarfélaginu, þrátt fyrir að fasteignaskattsprósenta hafi verið lækkuð. Mikið flækjustig er í útreikningi á lóðarleigu sem greidd er í Reykjanesbæ og mikilvægt að ná utan um þessi mál í heild sinni og grípa til þeirra aðgerða sem mögulegar eru.

Það er því ánægjulegt að bæjarstjórn Reykjanesbæjar var samstíga í eftirfarandi bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi 20. apríl 2021, en bókunin er svohljóðandi:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú liggur fyrir minnisblað frá fjármálaskrifstofu þar sem tekið hefur verið saman mismunandi lóðarleigusamningar sem eru hjá Reykjanesbæ. Eigendur lóða eru Reykjanesbær, ríkið og einstaklingar. Lóðarleiga er mismunandi, stór hluti er hlutfall af lóðarmati, aðrir tengdir lægstu launum verkamanns svo dæmi séu tekin. Íbúar Reykjanesbæjar hafa fundið fyrir mikilli hækkun lóðarleigu og er mikilvægt fyrir íbúana að þessi mál séu tekin föstum tökum og Reykjanesbær stuðli að því að ná utan um málið og beiti sér eins og hægt er fyrir samræmi.

Bæjarstjórn leggur því til eftirfarandi:

  1. Reykjanesbær hefji sem fyrst samningaviðræður við ríkið um kaup eða leigu á lóðum sem eru á Ásbrúarsvæðinu, sem yrðu síðan framleigðar til leiguhafa á Ásbrúarsvæðinu.

  2. Reykjanesbær hefji undirbúning á að kaupa þær lóðir innan bæjarmarka sveitarfélagsins sem eru falar.

  3. Skoðaðir verði möguleikar á samræmingu á lóðarleigusamningum á þeim lóðum sem Reykjanesbær á.

Margrét Sanders Sjálfstæðisflokki, Jóhann Friðrik Friðriksson Framsóknarflokki, Guðbrandur Einarsson Bein leið, Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki, Gunnar Þórarinsson Frjálsu afli, Friðjón Einarsson Samfylkingu, Baldur Þórir Guðmundsson Sjálfstæðisflokki, Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki, Díana Hilmarsdóttir Framsóknarflokki, Guðný Birna Guðmundsdóttir Samfylkingu, Styrmir Gauti Fjeldsted Samfylkingu.

Margrét Sanders