Aðsent

Lífsvenjur og bláu svæðin
Laugardagur 16. janúar 2021 kl. 07:21

Lífsvenjur og bláu svæðin

Eflaust hafa margir komið sér upp ákveðnum lífsreglum í lífinu, meðvitað eða ómeðvitað. Þessar reglur hafa haldið sér í gegnum ár og áratugi meðan aðrar hafa stoppað stutt við og lognast út af. Í byrjun árs er ágætis tími til að fara yfir helstu lífsreglur, festa góðar reglur enn betur í sessi en ýta öðrum út sem hafa lítinn sem engan tilgang eins og reykingar eða kyrrsetu lífsstíll.

Margir hafa séð þætti Helgu Arnardóttur, Lifum lengur, sem fjallar um bláu svæðin (Blue Zones). Bláu svæðin eru Loma Linda í Kanada, Nicoya Peninsula í Kosta Ríka, Sardinía á Ítalíu, Ikaria við strendur Grikklands og á eyjunni Okinawa við Japan. Á þessum svæðum býr fólk við meira langlífi en gengur og gerist á öðrum stöðum í heiminum og margir íbúar verða yfir 100 ára gamlir. Sérfræðingar og almenningur velta þess vegna fyrir sér: Hver getur verið lykillinn að langlífi?

Public deli
Public deli

Það sem er sameiginlegt með fólki sem býr á bláu svæðunum eru sérstaklega sex lífsstílseinkenni. Þessi eftirfarandi einkenni virðast stuðla að langlífi þeirra:

Fjölskyldan er sett í fyrsta sæti

- Lítið er um reykingar

- Meirihluti matar sem er neyttur er fenginn úr plönturíkinu

- Stöðug dagleg hreyfing er óaðskiljanlegur hluti af daglegu lífi

- Almenn félagsleg þátttaka fólks í samfélaginu er mikil

- Belgjurtir eru mikið notaðar í matargerð

Það er ekkert eitt atriði sem hentar öllum varðandi mataræðið. Leyndarmálið er að borða úrval af fersku og litríku fæði sem unnið er úr plönturíkinu, eins og ávexti, grænmeti, baunir og fleira. Hópar sem lifa að mestu á plöntufæði eru heilbrigðastir og lifa einna lengst. Íbúar á bláu svæðunum verja miklum tíma undir beru lofti. Þeir ganga og njóta fersks lofts og birtu allan daginn. Hreyfing er mjög áberandi á bláu svæðunum þar sem íbúar hreyfa sig mikið utandyra. Hreyfingin er þeim eins náttúruleg eins og borða eða sofa. Það sama á við um svefninn. Þau leggja mikla áherslu á að fá góðan svefn og taka jafnvel miðdegislúr. Fólk sem býr á þessum svæðum er meðvitað um ákveðinn tilgang með lífinu. Þau læra frá unga aldri að setja sér markmið, sýna ákveðni og temja sér þakklæti. Öll bláu svæðin hafa sterkar samfélagslegar fjölskylduhefðir sem eru leiðandi í gegnum allt þeirra líf. Góð vináttu- og fjölskyldusambönd hafa góð áhrif á heilsu þeirra og hamingju. Þetta er  einn sá þáttur sem þau setja í forgang. Á bláu svæðunum er borin virðing fyrir þeim sem eldri eru. Þau taka þátt í samfélaginu og hafa hlutverk sem skipta máli þar sem reynsla þeirra miðlast til yngri kynslóða. Ákveðið viðhorf er ríkjandi á svæðunum og má nefna seiglu, jafnaðargeð, þolinmæði og kímni.

Í því umhverfi sem við lifum í dag er bæði æskilegt og hollt að velta þessum þáttum fyrir sér, mynda okkur skoðun um lífsstíl sem æskilegt væri að fylgja eftir eða styrkja þann lífsstíl enn frekar sem við þegar búum við. Ef til vill inniheldur þinn lífsstíll eitthvað af þessum atriðum. Ef svo er þá getur verið gott að festa þessi atriði enn betur í sessi samhliða því að finna ákveðinn tilgang með tilveru þinni. Hugmynd okkar með heilsueflingu eldri aldurshópa sem og yngri er að styrkja þá enn frekar í sínu jákvæða lífsstílsferli og efla einstaklinginn og hvetja til enn frekari dáða.

Janus Guðlaugsson,
PhD-íþrótta-og heilsufræðingur

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
BA sálfræði og MBA