Aðsent

Lestur er lýðheilsumál
Miðvikudagur 29. janúar 2020 kl. 07:43

Lestur er lýðheilsumál

Margt hefur verið rætt og ritað um slæman árangur íslenskra skólabarna eftir að niðurstöður úr PISA rannsókninni voru birtar. Það er algjörlega óásættanlegt að fjórðungur nemenda sem útskrifist úr grunnskóla geti ekki lesið sér til gagns og hafi þá ekki sömu tækifæri til frekara náms. Margir hafa lýst yfir efasemdum um prófið og nokkrir sérfræðingar hafa leitað skýringa á niðurstöðunum. Slakur orðaforði og takmarkaður skilningur á hugtökum getur skýrt stóran hluta þeirra en nemendur vita oft ekki eftir hverju er verið að leita í spurningum eða finna ekki svörin í textanum því hann er svo framandi. Grunnskólar fá ekki að sjá niðurstöður fyrir sinn skóla en auðvelt er að skoða samræmdu prófin og sjá hvernig nemendur koma út í íslensku því það próf byggir að mestum hluta á lesskilningi.

Foreldrar og fjölskyldur eru óumdeilanlega stærsti áhrifavaldur þegar kemur að námsárangri, uppeldi og vellíðan barna. Heimili og skóli vinna vel saman en þar eru ótal tækifæri sem má nýta betur. Samfélagslegir þættir hafa mikil áhrif á fjölskyldur og skólann og þurfum við að huga að frítíma barna, hvað börnin fást við, hve miklum tíma þau verja í samskipti og hvað fjölskyldan gerir saman. Bókasafn Reykjanesbæjar er dæmi um góðan stað sem fjölskyldan getur sótt saman og eykur áhuga á lestri fjölskyldunnar. Skólabókasöfnin eru staður sem á að vera spennandi og áhugaverður fyrir börnin með gott úrval af fjölbreyttu fræðslu-og afþreyingarefni á íslensku og frístundaheimili eru stór hluti af lífi margra barna og þar þarf að vera aðgengi að bókum, tónlist og fleiru.

Það er klárlega samfélagslegt verkefni að hlúa að góðu umhverfi sem styrkir foreldra í uppeldishlutverki  en mikilvægast er að tala sem mest við börnin, lesa fyrir þau og láta þau svo lesa sjálf þegar þau hafa þroska til. Verkefni foreldra og alls samfélagsins er að efla orðaforða, og hugtakaskilning barna jafnt og þétt og skólakerfið byggir svo ofan á orðaforðann og eflir lesskilninginn. Lestur er lýðheilsumál og það er sameiginlegt verkefni alls samfélagsins að bregðast við og taka þátt í að efla áhuga barna á lestri og auka lesskilning.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir

BA sálfræði og MBA