Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Læsi til framtíðar
Laugardagur 23. mars 2019 kl. 06:00

Læsi til framtíðar

Á dögunum hélt Hermundur Sigmundsson prófessor frá Háskólanum í Þrándheimi í Noregi erindi um læsi í Reykjanesbæ fyrir fullum sal af fólki sem starfar og hefur áhuga á menntun og skólakerfinu. Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar bauð til erindisins en Hermundur hefur skrifað marga pistla í blöðin á undanförnum vikum svo margir þekktu efnið sem hann hefur fjallað um. Hann leggur áherslu á læsi og að nota rétta aðferðafræði þegar kemur að lestrarkennslu. Skólarnir þurfa að nota viðurkenndar aðferðir fyrir byrjendur, bókstafs-hljóða aðferð. Fremstu vísindamenn heims á sviði lestrar hafa fundið út með rannsóknum að börn þurfa að kunna bókstafina og hljóð þeirra til þess að brjóta lestrarkóðann eða að ná læsi. Einnig er mikilvægt að skapa áhuga og finna réttar bækur við hæfi hvers og eins. Bókasöfnin eiga að vera gullnáma fyrir börn og unglinga. Þjálfun er svo lykilatriðið og þar koma allir að, skólarnir og heimilin. Foreldrar og kennarar ættu alltaf að spyrja börnin hversu margar bækur þau lásu í síðasta mánuði og hvaða þrjár voru skemmtilegastar. Allt samfélagið þarf að koma að lestri og lestrarþjálfun barna og það ætti að vera okkar helsta verkefni í Reykjanesbæ – eflum lestur fyrir framtíð barna okkar.
Við þurfum að halda áfram og finna leiðir til að hjálpa öllum nemendum til að ná árangri í námi og líða vel í skólum. Lesturinn er lykilatriði til að vel gangi í öllu námi og ekki bara í grunnskóla heldur einnig í framhaldsskóla.

PISA 2015 sýndi að 28% drengja, fimmtán ára gamlir, eru á stigi eitt, sem sagt eiga erfitt með að skilja textann sem þeir lesa. Það má því reikna með að séu um 30% barna sem þurfa aðstoð við lestur á yngsta stigi en samkvæmt líffræðilegum rannsóknum eru um 5% barna með lesblindu. Hvað er þá að valda erfiðleikum allra hinna barnanna í lestri? Hefur það með kennslu í skólanum að gera, vöntun á áhuga eða er það ekki nægileg þjálfun heima eða samspil þessara þátta. Við verðum að átta okkur á því að lestur er færni sem þarfnast  mikillar þjálfunar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við þurfum að bæta úr þessu með aðstoð kennara, foreldra, skólanna og sveitafélagsins alls. Við getum alveg náð árangri í lestri því við erum með framúrskarandi leikskóla, mjög góða grunnskóla og frábært starfsfólk. Við höfum einnig glæsilegt bókasafn í Reykjanesbæ en kannski gætum við gert betur í skólabókasöfnum. Við verðum að bjóða upp á mjög gott úrval af bókum og þá skiptir máli að öll skólabókasöfn séu með bækur sem höfða til beggja kynja. Bækurnar þurfa að kveikja áhuga barnanna því þær eru í samkeppni við símana, spjaldtölvurnar og tölvuleiki. Að lesa margar bækur skiptir máli fyrir lesskilning og þannig byggjum við upp sterka og djúpa þekkingu.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir
BA sálfræði og MBA
bæjarfulltrúi D-listans í Reykjanesbæ