Toyota smurdagar 1170
Toyota smurdagar 1170

Aðsent

Kveðja til Suðurnesjamanna
Fimmtudagur 26. desember 2019 kl. 07:05

Kveðja til Suðurnesjamanna

Það er til siðs á þessum árstíma að líta um öxl og rifja upp liðið ár. Fyrir mig sem þingmann Suðurkjördæmis hefur árið verið bæði gjöfult og gott.

Á árinu standa ferðir um kjördæmið upp úr. Ég hef kappkostað að fræðast um og kynna mér hið víðfeðma Suðurkjördæmi og er svo lánsamur að hafa fengið að kynnast  afreksmönnum á ýmsum sviðum hins sunnlenska samfélags. Þannig hef ég heimsótt bændur sem stunda ólíkan búskap við ýmis konar aðstæður og hitt sjómenn sem stunda allra handa veiðar. Ég hef kynnt mér fyrirtækjarekstur af öllum stærðum og gerðum og komið við í opinberum stofnunum um allt kjördæmið sem gegna mikilvægu hlutverki, hver á sínu sviði.

Álögur á fyrirtæki of háar

Mér er fullljóst hversu harðgerðir og einbeittir íbúar Suðurkjördæmis eru. Lítil fyrirtæki blómstra sem aldrei fyrr sem kostar mikið harðfylgi og dug þeirra sem koma þeim á koppinn, eins og þeir þekkja sem hafa komið nálægt atvinnurekstri.

Álögur á fyrirtæki eru of háar á Íslandi. Flækjur í hinu opinbera kerfi taka of mikinn tíma og orku þeirra sem standa í rekstri fyrirtækja. Þessu þarf að breyta, lækka þarf tryggingagjald til muna og gera mönnum auðveldara að reka sín litlu fyrirtæki svo þeir geti ráðið til sín fleira starfsfólk, gert betur við það í launum og ráðist í fjárfestingar til að hagræða í rekstri.

Á Suðurnesjum hefur á undanförnum árum orðið fordæmalaus fjölgun íbúa. Mörg undanfarin ár hafa Suðurnes borið höfuð og herðar yfir önnur landsvæði hvað aukningu íbúafjölda varðar. Því ber að fagna en um leið gerir aukinn íbúafjöldi meiri kröfur til þeirra sem sveitarfélögum stýra sem og ríkisvaldinu. Hin mikla mannfjölgun kallar á aukna þjónustu á öllum sviðum samfélagsins.

Samgöngur og ýmis þjónusta á Suðurnesjum

Fjölgun íbúa kallar á betri og öruggari samgöngur við höfuðborgarsvæðið og þar er tvöföldun Reykjanesbrautar til Hafnarfjarðar mikilvægt atriði, ekki bara fyrir íbúa svæðisins heldur alla þá ferðamenn sem fara í gegnum eina alþjóðaflugvöll landsins.

Heilbrigðisþjónusta þarf að vera eins góð og best gerist. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hefur þjónað íbúum landshlutarins frá 1954 og hefur reynst burðarás. Þjónustuna þar þarf að auka og þar með minnka álagið á Landspítalanum. Í þessu felst hagur fyrir Suðurnesjamenn og höfuðborgarbúa. Þessi mikilvægu atriði í samgöngu- og heilbrigðismálum eru nauðsynleg öryggisatriði fyrir íbúa svæðisins.

Lögregluna þarf að efla um land allt en ekki síst í Suðurkjördæmi þar sem flestir ferðamenn stinga niður fæti og þar sem landamærin eru í raun. Löggæslumenn í landshlutanum vinna gríðarlega gott starf við erfiðar aðstæður. Umferðaróhöpp eru of mörg og efla þarf umferðaröryggi með öllum ráðum.

Ég óska lesendum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Karl Gauti Hjaltason
þingmaður Miðflokksins
í Suðurkjördæmi

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs