Nettó
Nettó

Aðsent

Hvað vil ég verða þegar ég verð stór?
Páll Valur Björnsson.
Mánudagur 18. mars 2019 kl. 06:00

Hvað vil ég verða þegar ég verð stór?

Sennilega er það ein erfiðasta ákvörðun sem nemandi sem er að úrskrifast úr grunnskóla stendur frammi fyrir að velja sér framhaldsnám. Hvað vil ég verða þegar ég verð stór? Ætti ég að fara í fjölbraut, menntaskóla, Versló? Ætla ég að fara í stutt nám eða langt nám? Stefni ég á háskóla eða ætla ég kannski bara að fara á starfsbraut og læra einhverja iðn? Hvaða störf eru í boði fyrir mig að loknu námi? Þessar spurningar og eflaust margar fleiri herja nú á þá nemendur sem eru að ljúka sínu grunnskólanámi og eflaust eru þetta líka spurningar sem foreldrar þessa nemenda eru velta fyrir sér.

Fisktækniskóli Íslands í Grindavík er framhaldsskóli hér á Suðurnesjum sem hefur m.a. það hlutverk að mennta fólk í sjávarútvegi að loknum grunnskóla og að bjóða ungu fólki á Suðurnesjum nám á framhaldskólastigi á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis. Námið er tveggja ára nám í fisktækni og enn fremur er hægt að sérhæfa sig í veiðarfæratækni, gæðastjórnun, fiskeldi og Marel-tækni með því að taka þriðja árið. Gríðarleg eftirspurn er eftir fólki sem hefur sérhæft sig í þessum greinum sjávarútvegsins enda hefur þróunin og nýsköpunin sem átt hefur sér stað innan atvinnugreinarinnar verið ótrúleg á síðustu misserum.

Stundum veltir maður því fyrir sér hvort almenningur hér á landi geri sér grein fyrir mikilvægi sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar fyrir íslenskan efnahag og framtíð landsins? Hann er lífæð þessarar þjóðar og mun vera um ókomna tíð, þrátt fyrir óáran og hrun stendur hann alltaf upp úr rústunum og kemur okkur á lappirnar aftur, sjávarútvegur hefur verið og mun vera áfram hornsteinn íslensks atvinnulífs. Við flytjum út fiskafurðir til allra heimshorna og á bak við þennan útflutning liggur ótrúleg vinna við markaðssetningu og gríðarmikil þekking sem byggst hefur upp á undanförnum árum og áratugum. Þekking á sviði laga, tækni, flutninga, samskipta og þjónustu sem hefur gert okkur kleyft að flytja hina fjölbreyttu flóru fiskafurða á diska neytenda út um allan heim.

Við Íslendingar erum í fremstu röð hvað varðar umhverfisvænar veiðar, sjálfbærni veiða og meðferðar á afla og athygli umheimsins á þessum þáttum í veiðum og vinnslu hefur aukist gífurlega á síðustu misserum. Það gerir það að verkum að störf í sjávarútvegi og vinnslu bjóða upp á spennandi starfsmöguleika. Í raun og sann má segja að þessi atvinnugrein sé á hraðri leið í þá átt að verða hátæknigrein sem kallar stöðugt á sérmenntað fólk til starfa. Hér á Suðurnesjum sem hafa fyrirtæki verið leiðandi í því að auka verðmæti fiskafurða og nægir að nefna þá miklu aukningu sem átt hefur sér stað í vinnslu ferskra fiskafurða sem fluttar eru daglega flugleiðis austur og vestur um haf frá Keflavíkurflugvelli. Eins má nefna fiskeldið sem er atvinnugrein í gríðarmikilli sókn og óvíða eru skilyrði til þess betri en hér á Suðurnesjum og sér fram á mikla uppbyggingu í þeirri atvinnugrein hér á svæðinu á komandi árum með tilheyrandi atvinnumöguleikum.

Þannig að framtíðin er björt hvað varðar vel launuð störf í sjávarútvegi, fiskvinnslu, veiðarfæratækni og fiskeldi hér á Suðurnesjum og Fisktækniskólinn í Grindavík býður ungu fólki jafnt sem þeim sem eldri eru upp á nám sem býr þau undir að starfa í þessu skemmtilega starfsumhverfi. Ég skora á foreldra og aðra að kynna sér það sem skólinn hefur upp á að bjóða því hann er góður valkostur fyrir þá sem vilja komast fljótt út á vinnumarkaðinn með hagnýtt nám í farteskinu.

Páll Valur Björnsson
kennari við Fisktækniskóla Íslands

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs