Aðsent

Hráskinnaleikurinn um kísilverið í Helguvík
Þriðjudagur 7. júlí 2020 kl. 07:53

Hráskinnaleikurinn um kísilverið í Helguvík

Íbúar Reykjanesbæjar horfa daprir á vinnubrögð stjórnvalda og ekki síst stjórnenda Reykjanesbæjar, sem láta nú teyma sig inn í hráskinnaleik um endurlífgun kísilvers. Arion banki og undirsátar þeirra stjórna leiknum. Haga sér eins og tígrisdýrið. Hvæsa og sína klærnar, ef þeir með réttu eða röngu, fá ekki reglum og skipulagi breytt að eigin geðþótta og óheft leyfi til strompa bygginga. Einn orðaði það svo að heybrækur stjórni meirihluta bæjarstjórnar. Meirihlutinn virðist ekki gera sér grein fyrir að á Íslandi eru eingöngu til pappírs tígrisdýr.

Blaðrarar eru þeir kallaðir sem setja fram skoðun sem er innihaldslaus og án meiningar. Allt tal hjá pólitískum leiðtogum Reykjanesbæjar um kísilverið í Helguvík er varla hægt að skoða öðruvísi en blaður. Hér eru dæmi tekin úr samstarfssáttmála meirihlutans‚ en þar segir m.a. „Framboðin þrjú hafna mengandi stóriðju í Helguvík“.  Í sáttmálanum kemur einnig fram að þeir vilji „að atvinnuuppbygging í Reykjanesbæ sé ávallt í sátt við íbúa“. Þetta verður ekki skoðað öðruvísi en innantómt blaður nema athafnir fylgi orðunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kísilverinu í Helguvík var komið á koppinn með lygum, svikum og prettum.  Fæst stóðst af því sem lofað var eða samið var um. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um United Silicon frá 2018 tínir ágætlega til hvílík svikamylla þetta var frá byrjun. Nánast allir sem komu að þessu verkefni á einn eða annan hátt töpuðu á því. Aðeins tveir aðilar sem voru með í svikamyllunni frá upphafi eru enn að. Það eru Arion banki og Verkís verkfræðistofa. Í skýrslu ársfundar Frjálsa lífeyrissjóðsins 2018, er aðkomu þeirra lýst. Arion banki sá um ráðgjöf til fjárfesta í fjárfestingarferlinu og þeir voru aðal lánveitandi til verkefnisins. Til Verkís var leitað með óháð verkfræðiálit varðandi kostnaðaráætlun verkefnisins. Frjálsi lífeyrissjóurinn var plataður upp úr skónum m.a. af þessum aðilum og tapaði öllu því fé er þeir lögðu til verkefnisins. Lífeyrissjóðir í umsjá Arion banka og einnig Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar  voru blóðmjólkaðir á sama hátt.

Já, fóstbræðurnir Arion og Verkís vissu allann tímann um þau gráu svæði sem kísilverið starfaði á. Byggingaleyfis brotin‚ deiliskipulags brotin og samningabrotin við t.d. ÍAV og stofnanir Reykjanesbæjar. Nú krefjast þeir að allar þessar misgjörðir verði samþykktar blygðunarlaust og gerðar löglegar af bæjaryfirvöldum. Ef ekki að þá muni þeir ekki aðeins hvæsa og sýna klærnar‚ heldur rífa á hol í dómsölum landsins hvern þann sem stendur í vegi þeirra við að koma ósómanum aftur á koppinn.

Hér er fjálglega talað um meinta forystusauði  bæjarfélagsins‚ þá ekki af ástæðulausu. Það tvennt sem fyrr er nefnt og þeir lofuðu bæjarbúum í upphafi kjörtímabils lítur út fyrir að verði svikið. Þeir láta nú úlfa í forystusauðagæru teyma sig inn í hráskinnaleik svikamyllunar sem Arion banki og Verkís voru meðal annarra upphafsmenn að. Æra meirihluta bæjarstjórnar verður aðeins endurheimt með því að þeir stöðvi áætlun pappírs tígrisdýrsins.

Reykjanesbæ 5. júli 2020

Tómas Láruson.