Aðsent

Hlustum á hugmyndir drengja
Laugardagur 25. september 2021 kl. 11:30

Hlustum á hugmyndir drengja

og gefum svigrúm fyrir ólík áhugamál og námsleiðir í lestrarnámi þeirra

Umræðan um drengi og lestur hefur verið fyrirferðamikil í samfélaginu undanfarin ár. Virðist vera að drengir hafi síður ánægju af bóklestri, að lesskilningur þeirra sé slakari nú en áður, fyrir utan það að þeim virðist ekki líða nægilega vel í skólanum. Það er áskorun fyrir alla skóla og foreldra að bregðast við þessum upplýsingum en í október verður gerð tilraun til að koma betur til móts við drengi með lestrarupplifun sem ber heitið Skólaslit og er það styrkt af Sprotasjóði.

Hugmynd að verkefninu kviknaði hjá kennsluráðgjöfum í Reykjanesbæ sem vildu koma betur til móts við drengi og var því farið út í það að gera spurningalista sem sendir voru til foreldra og gerð rýnisamtöl við drengi með það að markmiði að nýta upplýsingarnar í verkefninu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sáu kennsluráðgjafarnir, sem hófu þessa vinnu, tækifæri til að gera meira úr verkefninu sem hafði alla burði til að geta orðið afar spennandi og skemmtilegt, og buðu skólum í Suðurnesjabæ og Vogum að taka þátt, ásamt félagsmiðstöðvum og bókasöfnum. Hinn skemmtilegi og skapandi Ævar Þór Benediktsson gekk til liðs við hópinn og voru niðurstöður kannana og rýnisamtala sendar til hans og byggir verkefnið, sem er í formi lestrarupplifunar og birtist á vefnum https://www.skolaslit.is/, á hugmyndum, upplifunum og áhuga drengja þó svo að allir nemendur á mið- og unglingastigi komi til með að taka þátt og njóta góðs af. Er óhætt að segja að Ævar Þór hafi gripið hugmyndir drengjanna því að lestrarupplifunin er í formi spennandi hrollvekju sem margir drengir höfðu nefnt í könnuninni sem áhugavert lesefni.

Ef við rýnum í áhugamál umræddra drengja þá eru þau afar fjölbreytt og má þá helst nefna alls kyns íþróttir, tónlist, náttúrufræði, stærðfræði, spila tölvuleiki ásamt hefðbundnum spilum og að eiga samverustundir með fjölskyldu, svo eitthvað sé nefnt. Það sem þeir nefna að þeim þyki skemmtilegast að lesa um er meðal annars spennusögur, fræðsluefni, matreiðslubækur, efni tengt íþróttum og tónlist og síðast en ekki síst hrollvekjur. Þegar drengir eru spurðir um hvað gæti mögulega aukið áhuga þeirra á lestri, þá nefna þeir ýmsa þætti sem snúa að vali á lesefni. Þeir vilja fá að ráða sjálfir, bæði hvað þeir lesa og í hvaða formi. Þeir nefndu til dæmis lestur í tölvum eða iPad, lestur á öðrum tungumálum, að bækur eða lesefni sé spennandi eða fyndið, að vinna á skapandi hátt með lesefnið sjálft eins og að búa til bíómyndir úr því, að þeir hafi frelsi til að lesa fréttir af vef og nýta sér Storytel eða hlaðvörp. Einnig óska þeir eftir notalegra lestrarumhverfi. Þegar þeir voru að lokum spurðir um heimalestur þá vilja þeir almennt fá meira frelsi um leiðir til lesturs, eins og að nota Seesaw til að skila heimalestri og fá stundum að hlusta á efni í stað þess að lesa.

Könnun var send til foreldra og var henni meðal annars beint til feðra. Í henni komu einnig fram afar áhugaverð svör um lestur og lestraráhuga drengja. Spurt var um áhugasvið drengjanna og voru svör foreldra afar svipuð svörum þeirra. Foreldrar nefndu að auki áhuga á samfélagsmiðlum, ásamt tækni og stjörnufræði. Foreldrar telja yfir höfuð þátttöku sína í lestrarnámi barna sinna afar mikilvæga og að góð lestrarfærni sé mikilvæg fyrir framtíð þeirra. Það sem foreldrar töldu vera bestu leiðirnar til að auka lestraráhuga var aðallega að rýna í áhugasviðin og vinna með þau, að drengir hefðu eitthvað um nám sitt að segja, að minnka vægi á lestrarhraða en að auka vægi lesskilnings. Að lokum þegar foreldrar voru spurðir um hvernig þeir gætu mögulega stutt betur við lestrarnám barna sinna þá nefndu þeir þætti eins og hvatningu, að sýna áhuga á lesefninu, gefa þeim meiri umbun fyrir heimalesturinn og að lesa meira með þeim.

Er því óhætt að segja að drengir og foreldrar hafi áhugaverðar skoðanir varðandi lesefni og lestraraðferðir sem nýttar eru í skólum og í heimalestri. Drengir geta lesið en niðurstöðurnar benda til þess að þeir vilji hafa meiri áhrif á lestrarnámið sitt, að þeir vilja styðjast við efni sem tengist áhugasviðum þeirra og þeir vilja vinna með læsistengt efni á fjölbreyttan hátt. Er mikilvægt að bregðast við niðurstöðum úr umræddum könnunum og verður sérstök áhersla lögð á það á mið- og unglingastigi í októbermánuði. Það er öllum frjálst að taka þátt í lestrarupplifuninni með skólum í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum og hvetjum við sem flesta, sérstaklega foreldra, til að taka þátt.

Heiða Ingólfsdóttir,
kennsluráðgjafi í Suður­nesjabæ og Vogum.