Aðsent

Heilsulæsi: Þekking um heilsu og lífsstíl
Föstudagur 25. september 2020 kl. 09:34

Heilsulæsi: Þekking um heilsu og lífsstíl

Heilbrigt samfélag byggir á öflugri lýðheilsu fyrir alla íbúa. Mikilvægt er að bjóða upp á heilsueflingu svo allir geti ástundað heilbrigðan lífsstíl. Heilsulæsi spilar þar stórt hlutverk og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun felst heilsulæsi í því að fólki sé kleift að taka jákvæðar ákvarðanir og hafi þekkingu og færni til að grípa til aðgerða til að bæta sína heilsu.

Heilsulæsi er meira en að geta lesið bæklinga og utan á matvöru, það felur í sér ákveðna þekkingu. Til dæmis að að breyta persónulegum lifnaðarháttum en það er lykillinn að því að skoða sínar daglegu venjur og hvaða áhrif þær hafa á eigin heilsu. Ábyrgð okkar sem einstaklinga snýr að því að vera meðvitaður um hvaða þættir hafa góð áhrif á okkar líkamlegu, andlegu og félagslegu heilsu. Að hafa gott heilsulæsi snýr ekki bara að einstaklingnum heldur öllu samfélaginu og ábyrgðin er hjá fyrirtækjum, stofnunum og bæjarfélaginu.

Allir þurfa að styðja við góða heilsuhegðun á margvíslegan hátt, t.d. með góðum göngu- og hjólastígum, góðu aðgengi að vatni, öryggi íbúa og menntun og fræðslu um heilsusamlega lifnaðarhætti. Mikilvægt er að samfélagið stuðli að heilbrigðum lifnaðarháttum með vellíðan allra íbúa að leiðarljósi. Íbúar þurfa hvatningu að velja hollari kostinn fram yfir þann óholla og stuðli þannig að bættri heilsu. Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag með það markmið að efla lýðheilsu og það þarf því stöðugt að huga að því að heilsa og líðan íbúa sé höfð í fyrirrúmi. Áherslu á forvarnir og lýðheilsu er gætt í skólum og sérstök áhersla hefur verið lögð á geðheilbrigðisþjónustu og vímuvarnir.

Efling heilsulæsis og heilsuhegðunar er sameiginlegt verkefni okkar allra svo mikilvægt er að við tökum ábyrgð á eigin heilsu. Í október er heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ og þema vikunnar er Heilsulæsi. Ég hvet fyrirtæki, stofnanir og alla íbúa til að taka þátt og efla heilsulæsi og heilsuhegðun hjá okkur öllum.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024