Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Heilsuefling í Reykjanesbæ og Grindavík fyrir íbúa 65 ára og eldri
Gunnar Jónsson hefur verið elsti þátttakandinn í heilsueflingu Janusar en hann byrjaði 94 ára. Hér mælir Janus gripstryk hjá Gunnari.
Föstudagur 2. apríl 2021 kl. 07:35

Heilsuefling í Reykjanesbæ og Grindavík fyrir íbúa 65 ára og eldri

Vorið 2017 reið Reykjanesbær á vaðið, fyrst sveitarfélaga hér á landi, og bauð upp á skipulega heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri. Verkefnið var skipulagt í samstarfi við ­Janus heilsueflingu og hefur það verið í gangi síðan. Í upphafi árs 2020 fór Grindavík af stað með verkefnið og hefur það einnig gengið einstaklega vel.

Reykjanesbær og Grindavík eru heilsueflandi samfélög sem leggja áherslu á forvarnir og lýðheilsu fyrir alla aldurshópa. Verkefnið er í raun lýðheilsutengt inngrip með áherslu á heilsutengdar forvarnir auk þess sem það er byggt á raunprófanlegum aðferðum doktorsvekefnis Janusar Guðlaugssonar.

Public deli
Public deli

Markmiðið verkefnis er að bæta heilsu og lífsgæði eldra fólks með daglegri hreyfingu og stunda styrktarþjálfun að minnsta kosti tvisvar í viku. Til að styðja við daglega hreyfingu eru sextán fræðsluerindi á tveimur árum um heilsutengda þætti eins og næringu, svefn og heilsu sem þátttakendur sækja.

Verkefnið fór einstaklega vel af stað á báðum stöðum þar sem um 120 manns skráðu sig til leiks árið 2017 í Reykjanesbæ og um 80 þátttakendur í Grindavík. Inn í verkefnið í Reykjanesbæ hafa verið tekin milli 50 til 60 manns á sex mánaða fresti. Heilsuþjálfarar eru allir sérhæfðir á sínu sviði auk þess sem leitað er til sérfræðinga eins og lækna, sjúkraþjálfara, lýðheilsufræðinga og annars fagfólks þegar þurfa þykir. Heilsueflingin er einstaklingsbundin þó unnið sé saman í nokkrum hópum.

Verkefnið er skipulagt sem tveggja ára heilsuefling í fjórum sex mánaða þrepum. Heilsufarsmælingar eru á sex mánaða fresti þar sem þátttakendur geta fylgst reglulega með framgöngu og breytingum á heilsu sinni. Rétt er að nefna að einstaklega gott samstarf hefur verið við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) í tengslum við blóðmælingar og nýlega var undirritaður samningur um áframhaldandi samvinnu, m.a. mælingu á efnaskiptavillu sem er áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma og heilsumat 65+ unnið af starfsfólki HSS.

Fyrsti hópurinn sem fór í gegnum heilsueflinguna í Reykjanesbæ kom einstaklega vel út þegar niðurstöður eru skoðaðar. Meðal helstu niðurstaðna að lokinni tveggja ára heilsueflingu voru þær að blóðþrýstingur lækkaði, hreyfi- og afkastageta þátttakenda óx, fitumassi minnkaði en vöðvamassi jókst auk þess sem heilsutengd lífsgæði urðu betri með hverju sex mánaða þrepi (sjá nánar mynd). Þá er rétt að geta þess að áhættuþáttur hjarta- og æðaskjúkdóma, svonefnd efnaskiptavilla, færðist til betri vegar en um 30% þátttakenda sem greindir voru með efnaskiptavillu færðust úr slíktri áhættu á fyrstu sex mánuðum verkefnisins. Eftir að Covid-19 skall á í ársbyrjun 2020 hefur verið fylgst náið með þátttakendum í verkefninu og þeir mældir reglulega. Þrátt fyrir skert aðgengi að heilsueflingu var brugðið á það ráð að vera með fjarþjálfun fyrir þátttakendur. Slíkt utanumhald skilaði góðum árangri þegar litið er á niðurstöður Covid-19-tímabilsins. Allar mælingar standa í stað eða færast til betri vegar fyrir utan mælingar á styrk, vöðva- og fitumassa sem færðust í neikvæða átt. Má færa ástæðuna til lokun heilsuræktarstöva á tímabilinu. Það er von okkar að geta fært þessar niðurstöður aftur til betri vegar í samvinnu við þátttakendur þegar léttir á samkomutakmörkunum.

Sameiginlegar þolæfingar í formi gönguþjálfunar fara fram einu sinni í viku  í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ og/eða á Nettóvellinum en í Hópinu í Grindavík og/eða á útivistarsvæðinu við íþróttamiðstöðina í Grindavík. Þátttakendum er látið það eftir að stunda daglega hreyfingu eftir sérstakri áætlun sem þeir fá við upphaf verkefnis. Þá eru tvær styrktarþjálfunaræfingar í viku í Sporthúsinu á Ásbrú eða Gym heilsu í Grindavík undir leiðsögn þjálfara. Þátttakendum er velkomið að bæta við einni til tveimur æfingum til viðbótar. Janus heilsuefling, Sporthúsið og Gym heilsa hafa gert með sér sérstakan samning sem þátttakendur njóta góðs af. Þá stendur þátttakendum einnig til boða jógatímar, þeir fá sérstakt heilsuapp í símann auk þess sem þeir eiga aðgengi að sérstökum heilsupistlum og þjónustu í gegnum verkefnið.

Í apríl fer af stað sérstakur kynningarmánuðir. Öllum íbúum í Reykjanesbæ og Grindavík sem hafa náð 65 ára aldri er velkomið að skrá sig í gegnum heimasíðuna janusheilsuefling.is  Þar fá þeir að kynnast verkefninu í gegnum lokaðan Facebook-hóp auk þess að fá senda tölvupósta um heilsutengda þætti. Skráning þessi er án skuldbindinga og öllum 65+ opin. Síðan er stefnt á að vera með kynningarfundi í maí áður en farið verður af stað með nýja hópa í þjálfun. Fundurinn verður auglýstur síðar eða um leið og samkomutakmörkunum lýkur og eldri einstaklingar 65+ hafa verið bólusettir við Covid-19.

Mælingar á heilsu þátttakenda sem tekið hafa þátt í verkefninu hafa sýnt mjög greinilega, ef frá er talið tímbil samkomutakmarkana og lokun heilsuræktarstöðva á árinu 2020, einstaklega góðan ávinning af heilsueflingunni. Þessi ávinningur nær til félagslegra, andlegra og líkamlegra þátta.

Janus Guðlaugsson, PhD-íþrótta-og heilsufræðingur. Anna Sigríður Jóhannesdóttir, BA sálfræði og MBA.

Myndin sýnir þjálfunar- og þjónustuþætti í fjölþættri heilsueflingu 65+ hjá Janusi heilsueflingu.

Myndin sýnir mat þátttakenda á eigin heilsu á hverju sex mánaða tímbili, fyrir þjálfun (júní 2017) og síðan til loka verkefnis í júní 2019.