Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Gleði beint í æð
Myndir frá frumsýningu. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Mánudagur 8. febrúar 2021 kl. 10:28

Gleði beint í æð

Ég held að ég hafi sjaldan eða aldrei heyrt eins mikið hlegið í leikhúsi eins og í kvöld. Ég hugsa að einhverjir leikhúsgesta verði jafnvel með strengi í kviðnum á morgun eftir hláturkviður kvöldsins. Snilldin sem vakti þessi sterku gleðiviðbrögð hjá fólki var sýningin Beint í æð eftir Ray Cooney sem er leikstýrt af Jóel Sæmundssyni og Leikfélagi Keflavíkur er að sýna í Frumleikhúsinu. Ég var svo heppinn að fá miða á frumsýninguna og þessi orð eru skrifuð þegar ég rétt nýkominn heim af henni.

Unga fólkið sem stendur að sýningunni geislar svo af krafti og gleði að leikhúsgestir geta ekki annað en hrifist með. Verkið sjálft er klassískur farsi með tilheyrandi misskilningi og flækjum, allt saman sprenghlægilegt og einstaklega skemmtilegt. Leikararnir standa sig allir mjög vel en þó verð ég að nefna Sigurð Smára Hansson sérstaklega sem túlkar lækninn Jón Borgar. Hann hefur einstak lag á því að koma sér í vandræði og er miðpunktur í öllum hvirfilvindinum. Frábær frammistaða hjá aðalleikaranum.

Ég trúi ekki öðru en að fólk komi til með að fjölmenna á þessa skemmtilegu sýningu. Hún er frábær skemmtun og eitthvað sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Svo er bara svo gaman að geta farið í leikhús eftir allar þær takmarkanir sem hafa lagst á okkur öll síðustu mánuði og um leið að lagt sitt af mörkum til að styðja menningarstarf heima í héraði. Ég skora því á þau ykkar sem lesið þessi orð að finna Leikfélag Keflavíkur á netinu eða á samfélagsmiðlum eða á tix.is og tryggja ykkur miða. Það skiptir máli að gera það fyrr en seinna því fólk þarf að mæta til að sýningin haldi áfram.

Ólafur Þór Ólafsson