Aðsent

Gilda grænu gildi Arion ekki á Suðurnesjum?
Sunnudagur 28. júní 2020 kl. 17:44

Gilda grænu gildi Arion ekki á Suðurnesjum?

Arion banki, eigandi Stakkbergs, virðist ætla að halda fast við þá áætlun sína að ræsa kísilverksmiðjuna í Helguvík á nýjan leik. Stjórnendur Arion banka eru þar í hrópandi mótsögn við sjálfa sig þar sem þeir hafa í fjölmiðlum undanfarið státað sig af grænum gildum.

Nýlega mátti lesa í Viðskiptablaðinu að viðskiptavinum Arion banka byðist að leggja sparnað sinn inn á „vistvænan“ innlánsreikning og slíkum reikningum yrði ráðstafað til „umhverfisvænna“ verkefna.

Og ekki er langt síðan Arion banki kynnti „græna“ stefnu fyrirtækisins sem meðal annars felst í því að bankinn ætlar að krefja byrgja sína um þeir þeir grípi til aðgerða í umhverfis og loftlagsmálum í sinni starfsemi.

Því miður verður að segjast að stjórnendur Arion banka/Stakkbergs eru þarna skelfilega ósamkvæmir sjálfum sér, vægast sagt.  Eða gilda grænu gildin ekki á Suðurnesjum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það ætlar að reynast eigendum kísilbræðslunnar óskaplega erfitt að meðtaka þá staðreynd að meirihluti bæjarbúa vill ekki þessa verksmiðju. Þeir eru vel minnugir þess hildarleiks sem fór af stað þegar hún var ræst á sínum tíma undir merkjum United Silicon. Þar fór allt á versta veg, þrátt fyrir síendurtekin loforð um að allt stæði til bóta og eingöngu væri um byrjunarerfiðleika að ræða. Það stóðst engan veginn.  Starfsleyfið var gefið út á falsaða umhverfismatsskýrslu sem innihélt  fögur  fyrirheit um „bestu fáanlegu tækni“ . Þar stóð ekki steinn yfir steini.

Og enn á ný mæta eigendur verksmiðjunnar með umhverfismatsskýrslu, stagbætta frá hinni fyrri, og lofa að allt verði betra en síðast. Traust bæjarbúa til framkvæmdaaðilans er hins vegar á núlli sökum fyrri reynslu. Þeir hafa engan áhuga á að ganga aftur í gegnum þær hörmungar sem þessi verksmiðja leiddi yfir þá síðast þegar hún var gangsett. Bæjarbúar vilja njóta vafans. Og vafinn er gríðarlegur eins og best sést þegar rýnt er í hina nýju umhverfismatsskýrslu.

Þar eru ýmsar fullyrðingar um lofgæði, samfélag, atvinnulíf og ekki síst heilsu sem eru með öllu ósannaðar. Vert er að benda á vel rökstudda umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 11. júní síðastliðnum þar að lútandi. Ráðið er ekki sammála niðurstöðum frummatsskýrslunnar varðandi  þessa þætti og telur mjög ólíklegt að efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar séu það mikil að þau vegi upp á móti neikvæðum áhrifum hennar á þann veg að þau nái að gera heildaráhrif verksmiðjunnar á samfélagið jákvæð.

Þá rétt að benda á hvernig hlutirnir hafa gengið hjá PCC á Bakka. Þar hefur allt gengið á afturfótunum líkt og hjá United Silicon á sínum tíma. Samt fullyrtu forsvarmenn PCC  í fjölmiðlum að sagan myndi ekki endurtaka sig, þeir ætluðu að gera þetta miklu betur og vanda til verka, auðvitað „með bestu fáanlegri tækni“.  Raunin er hins vegar allt önnur og í því ljósi er engan veginn hægt að treysta því að hörmungarsaga United Silicon endurtaki sig ekki, verði verksmiðjan ræst  að nýju. Nýjustu fréttir eru þær að verið sé að stöðva rekstur PCC á Bakka.  Lífeyrissjóðir landsmanna hafa tapað milljörðum líkt og í tilfelli United Silicon.

Sú fullyrðing í matsskýrslu Stakkbergs að fjórir bræðsluofnar muni  menga minna en sá eini sem var fyrir verður að teljast algjörlega út í hött. Hún stenst enga skoðun. Framkvæmdaaðili  réði ekki einu sinni við að reka einn ofn, eins og raun ber vitni.  Hjá PCC á Bakka hafa menn verið í miklum vandræðum með að reka tvo ofna.  Það verður því að teljast vafamál að framkvæmdaðili sé fær um að reka fjóra ofna skammlaust í ljósi þess sem á undan er gengið.

Þessi verksmiðja er hrikaleg tímaskekkja á tímum þegar mannkynið allt stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda í loftlagsmálum.  Það liggur fyrir að Íslendingar geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart annarri samþykkt Kýótóbókunarinnar. Ísland skuldbatt sig til að draga úr losun um fimmtung en hún hefur hins vegar verið stöðug síðan 2011. Og þá blasir það einnig við að Íslendingar geta ekki heldur staðið við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins og þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir mikla fjármuni. Pólitísk loforð um efndir skuldbindinga í loftlagsmálum eru afar ósannfærandi í ljósi reynslunnar. Og eigum við þá bara að ræsa eitt stykki kolabrennandi kísilbræðslu sem eykur losun Íslands um  10 prósent og rúmlega það? Hvernig samræmist það grænu gildunum hjá Arion banka?

Að lokum er rétt að árétta stefnu Reykjanesbæjar varðandi iðnaðaruppbyggingu í Helguvík. Í Aðalskipulagi bæjarins, samþykktu árið 2017 er ekki gert ráð fyrir frekari starfsemi í Helguvík sem losi flúor og brennisteinsdíoxíð.  Þá skal bent á áskorun meirihluta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar á fundi bæjarstjórnar þann 22. janúar 2019 til framkvæmdaaðila og eigenda kísilverkefna í Helguvík þess efnis að þeir falli frá uppbyggingu og rekstri kísilmálmverksmiðja í Helguvík. Það er því augljóst að hvorki bæjaryfirvöld né bæjarbúar kæra sig um þessa verksmiðju.

Stjórnendur Arionbanka/Stakksbergs verða að meðtaka það.  Þeir gera hins vegar lítið úr núllkostinum, sem fær ekkert vægi í skýrslunni af því hann „samræmist ekki markmiði framkvæmdaaðila“.  En hvað með markmið bæjaryfirvalda og vilja bæjarbúa? Hefur það ekkert vægi?
Segir það ekkert um vilja bæjarbúa að hátt í þrjúþúsund þeirra skrifuðu undir áskorun um að íbúakosning færi fram um málið?

Leyfisveitendur og stjórnsýslan mega ekki bregðast bæjarbúum eins og síðast. Nú er komið að því að standa með þeim. Heilsu og lífsgæði 20 þúsund íbúa verður að taka fram yfir fjárhagslega hagsmuni eins fjármálafyrirtækis.

Ellert Grétarsson,
Íbúi í Reykanesbæ.