Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Frú Ragnheiður fær góðan meðbyr
F.v. Hulda Björk Stefánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir frá Leikfélagi Keflavíkur, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum, Díana Hilmarsdóttir forstöðumaður Bjargarinnar og Hannes Friðriksson formaður Rauða krossins á Suðurnesjum.
Miðvikudagur 5. júní 2019 kl. 06:00

Frú Ragnheiður fær góðan meðbyr

Á vormánuðum hefur Leikfélag Keflavíkur slegið í gegn með sýningunni „Allir á trúnó".

Við frágang á lokasýningingu, kom til tals að verkefnið „Frú Ragnheiður“ væri að fara af stað hjá Rauða krossinum á Suðurnesjum. Í lokahófinu kviknaði sú umræða að halda eina styrktarsýningu og tileinka hana þessu nýja verkefni. Leikararnir voru allir sammála um það og hættu því við frágang á leikmunum sýningarinnar.

 Á sýningunni söfnuðust tæplega 200 þúsund krónur en Leikfélag Keflavíkur ákvað að færa verkefninu „Frú Ragnheiði“ upphæð sem samsvaraði fullu húsi eða 300 þúsund krónur að gjöf. Fyrir hönd Leikfélagsins afhentu þær Halla Karen Guðjónsdóttir og Hulda Björk Stefánsdóttir Rauða krossinum á Suðurnesjum gjöfina sem við hjá Rauða krossinum teljum mjög rausnarlega og þökkum kærlega fyrir.

Unnið hefur verið að undirbúningi skaðaminnkunar á Suðurnesjum og hefur Díana forstöðumaður Bjargarinnar ásamt Rauða krossinum á Suðurnesjum unnið þarfagreiningu þar sem komið hefur í ljós að full ástæða er til að byrja á verkefninu. Við finnum fyrir miklum velvilja með verkefninu og hefur Bílaleigan Geysir lánað okkur bíl til eigin afnota. Bílinn verður ómerktur smæðar samfélagsins vegna. Rauði krossinn á Suðurnesjum þakkar þennan góða meðbyr.

Undirbúningur í fullum gangi
Stefnt er að því að verkefnið fari af stað á haustmánuðum en undirbúningur er í fullum gangi hjá Rauða Krossinum á Suðurnesjum í samvinnu við Landsskrifstofu RKÍ. Verkefnið verður unnið eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar (Harm Reduction) sem notuð er víða í stórborgum um allan heim, í vinnu með einstaklingum sem eiga við vímuefnavanda að stríða. Verkefnið miðar helst að því að draga úr þeim skaða sem vímuefnanotkun getur valdið einstaklingum hvort sem er heilsufarslega eða félagslegan án þess þó að hafa áhrif á notkun einstaklingsins. Skaðaminnkun er samfélagslegt verkefni sem ekki einöngu veitir notendum hreinan búnað, heldur fargar honum einnig og dregur þar að leiðandi úr þeim skaða sem getur orðið í nærsamfélaginu.

Við vonumst einnig til að geta boðið upp á einhverskonar næringu, hlýjan fatnað og jafnvel einhverja smá heilbrigðisþjónustu. Þess má einnig geta að nú þegar hafa okkur borist umsóknir frá sjálfboðaliðum og er stór hluti þeirra frá fólki innan heilbrigðisstétta.

Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir,
verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum.