bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Frímúrarastúkan Sindri með opið hús á Ljósanótt
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 3. september 2019 kl. 08:57

Frímúrarastúkan Sindri með opið hús á Ljósanótt

— laugardaginn 7. september

Á þessu ári eru eitthundrað ár síðan fullgilt stúkustarf frímúrara hófst hér á landi. Það hófst með formlegum hætti þegar Jóhannesarstúkan Edda í Reykjavík var vígð 6. janúar 1919. Fyrstu áratugina heyrðu frímúrarastúkur undir dönsku Frímúrararegluna, eða allt þar til formleg frímúrararegla var stofnuð hér á landi árið 1951. Aldarafmælis íslensks frímúrarastarfs hefur verið minnst með ýmsum hætti á þessu ári. Meðal annars hafa verið sérstakir afmælisfundir, kvikmynd um frímúrara frumsýnd í Hörpu í vor og öll fimmtán stúkuhús landsins hafa verið með opin hús eða munu halda opið hús hluta úr degi og kynna starfsemi sína á árinu.

Árið 1975 komu frímúrarar á Suðurnesjum saman og hófu undirbúning að stofnun formlegrar frímúrarastúku hér á svæðin. Frímúrarastúkan Sindri var síðan stofnuð 21. nóvember 1978 sem fullgild stúka og varð 40 ára á síðasta ári.

Í Reykjanesbæ mun Sankti Jóhannesarstúkan Sindri verða með opið hús að Bakkastíg 16 í Reykjanesbæ laugardaginn 7. september frá kl. 10 – 14. Bæjarbúum og gestum Ljósanætur er velkomið að kíkja við, skoða húsnæði stúkunnar, þiggja veitingar og fá svör við spurningum sem hugsanlega brenna á einhverjum.

Arngrímur Guðmundsson