Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Aðsent

Framtíðarhöfnin í Helguvík
Föstudagur 8. júní 2007 kl. 08:53

Framtíðarhöfnin í Helguvík

Hafnaraðstæður í Helguvík eru hinar bestu og svæðið hefur verið skipulagt með framtíðarsjónarmið í huga. Uppbygging álvers í Helguvík mun stórauka flutninga um höfnina og skapa skilyrði til hagkvæms reksturs hennar. 

Mest allir flutningar til og frá fyrirhuguðu 250 þúsund tonna álveri Norðuráls verða um höfnina í Helguvík og mun skipaumferð því aukast verulega. Áætlað er að um 25 skipakomur árlega með súrál. Um 50 skipakomur verða svo með önnur aðföng til álversins og til baka með útfluttar afurðir (ál). Aðflutningar eru meðal annars hráefni fyrir álframleiðslu auk varnings eins og rafskauta, kerfóðringarefnis og annars sem þarf í framleiðsluna.

Uppbygging iðnfyrirtækja
Fyrirhugað álver þarf á margs konar þjónustu að halda. Reynslan sýnir að nálægt álverum byggjast iðulega upp nokkur iðnfyrirtæki sem þjónusta álverin. Með álveri við Helguvík skapast ákjósanleg skilyrði fyrir uppbyggingu slíkra fyrirtækja á iðnaðarsvæðinu sem styður við þau framtíðarsjónarmið er skipulag Helguvíkur tekur mið af. Þar að auki skapast enn betri aðstæður en áður fyrir önnur fyrirtæki sem koma til með að nýta sér hafnaraðstæður í Helguvík þar sem bygging álversins kallar á að höfnin verði stækkuð fyrr en ella.

Hinn 27. apríl 2006 undirrituðu Norðurál og Reykjaneshöfn, sem er í eigu Reykjanesbæjar, hafnarsamning vegna fyrirhugaðs álvers. Samkvæmt samningnum verður Norðuráli heimilt að koma fyrir og starfrækja byggingar og tækjabúnað á hafnarbakkanum og á hafnarsvæðinu til að þjónusta álverið. Um 30.000 m2 athafna- og geymslusvæði verður útbúið á hafnarsvæðinu fyrir aðföng og framleiðsluvörur álversins auk þess sem gengið verður frá reit undir súrálssíló.

380 metra viðlegukantur
Sú tillaga sem nú er til umræðu og þykir líklegust gerir ráð fyrir nýjum 380 m viðlegukanti þar sem mesta dýpi verður um 14,5 m. Samkvæmt því geta allt að 60.000 brúttólesta skip lagst þar að. Einnig er gert ráð fyrir að útbúin verði viðbót við núverandi brimvarnargarð. Hér er um að ræða um 150 m langan grjótgarð með legu til aust-suðausturs. Efni í hann mun koma úr dýpkun innan hafnar og frá sprengingum á landi. Með stækkun hafnarinnar koma fleiri og stærri skip, eða allt að 60.000 brúttólesta, til með að geta lagst að höfninni og sjólag verður enn betra með stækkun brimvarnargarðs. Ströngustu öryggisreglna verður gætt í hvívetna.

Helguvík mikilvæg höfn
Við Helguvíkurhöfn hefur verið skapaður grunnur að fríiðnaðarsvæði, þar sem Helguvík býður upp á flutningsleiðir hvort sem er á sjó, landi eða í lofti um Keflavíkurflugvöll í aðeins 4 km fjarlægð. Helguvík er einnig olíuhöfn Suðurnesja með
uppskipunaraðstöðu fyrir olíu í eigu NATO sem einnig á þar birgðastöð.
Stórt athafnasvæði er einnig við höfnina fyrir gámageymslur, vöru- og frystigeymslur. Iðnaðarlóðir hafa verið skipulagðar í nágrenninu til að uppfylla óskir út- og innflutningsaðila um kjöraðstöðu til uppbyggingar athafnasvæða.
Nokkur fyrirtæki eru  þegar starfrækt við Helguvík. Þau eru fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, flokkunarstöð Helguvíkurmjöls, Alur álvinnsla hf., Aalborg Portland sementsgeymsla og dreifingarmiðstöð fyrir pakkað sement, Malbikunarstöð Suðurnesja og Kalka, sorpeyðingarstöð Suðurnesja.

Framkvæmdaráætlun vegna stækkunar hafnarinnar gerir ráð fyrir að framkvæmdir við hafnargerðina geti hafist árið 2007. Með framangreint í huga þarf engum að blandast hugur um að uppbygging álvers í Helguvík verður lyftistöng fyrir hafnarstarfsemina og atvinnulíf á Suðurnesjum.

Þorsteinn Erlingsson
Höfundur er skipstjóri og formaður Atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs