Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Fordæmi
Föstudagur 23. nóvember 2018 kl. 13:22

Fordæmi

Þann 31. mars árið 2007 kusu íbúar Hafnarfjarðar í atkvæðagreiðslu um hvort samþykkja ætti deiliskipulag sem heimilaði stækkun álversins í Straumsvík. Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar taldi á þessum tíma, rétt að vísa þessari deiliskipulagsbreytingu til íbúa.
 
 
Mikill áhugi var á þessari kosningu í Hafnarfirði og var kjörsókn mjög góð eða rúmlega 76%. 

Mjög tvísýnt var hins vegar um niðurstöðuna, en það fór svo að deiliskipulagsbreytingu var hafnað með 50,3% atkvæða en 49,3% vildu samþykkja.
 
Hér á Suðurnesjum gæti staðan orðið með svipuðum hætti. Félagið Stakksberg hefur nú yfirtekið kísilver United Silicon í Helguvík og ætlar sér stóra hluti. Umhverfisstofnun hefur hins vegar krafist endurbóta á verksmiðjunni, sem gerir það að verkum að breyta þarf deiliskipulagi. 
 

Hér eins og í Hafnarfirði er það í höndum sveitarfélagsins að taka ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi. Þetta er hins vegar orðið það stórt mál að það væri óeðlilegt að leggja það á 11 bæjarfulltrúa að taka þessa ákvörðun. 
 
Það fordæmi sem Hafnfirðingar settu á sínum tíma ætti að geta orðið það leiðarljós sem við hér í Reykjanesbæ eigum að geta nýtt okkur og ættum að nýta okkur, þ. e. að kalla eftir vilja íbúa í þessu stóra máli. 
 
Guðbrandur Einarsson,

oddviti Beinnar leiðar.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024