Aðsent

Fjölgun dagvistunarrýma og húsnæðismál
Föstudagur 18. maí 2018 kl. 10:49

Fjölgun dagvistunarrýma og húsnæðismál

Framboð D lista Sjálfstæðismanna og óháðra hefur ákveðið að hefja rekstur ungbarnaleikskóla í húsnæði í Sandgerði, ætlaðan börnum frá 12 mánaða aldri eins fljótt og kostur er. Jafnframt verður ný deild byggð í sumar við leikskólann Gefnarborg í Garði. En ört vaxandi samfélag kallar á frekari uppbyggingu í dagvistunarmálum og verður staðsetning á nýjum leikskóla ákveðin við vinnslu á nýju aðalskipulagi fyrir sameinað sveitarfélag og í takt við þróun íbúðabyggðar.
 
Í aðdraganda kosninga hafa frambjóðendur D lista Sjálfstæðismanna og óháðra í nýju sveitarfélagi fengið margar ábendingar frá foreldrum ungra barna vegna skorts á úrræðum í dagvistarmálum. Ekki hafa fengist dagforeldrar til starfa þrátt fyrir auglýsingar og einungis ein dagmóðir starfandi í sameiginlegu sveitarfélagi. Sjálfstæðismenn og óháðir hafa fullan skilning á þessu og bregðast við með ábyrgum hætti eins og hér segir.
 
Mikil umræða hefur einnig átt sér stað um húsnæðismál í nýju sveitarfélagi. Báðir byggðakjarnar eru að bregðast við  með auknu framboði lóða undir nýbyggingar. Hafin er úthlutun lóða í Garði á svæði ofan Garðvangs þar sem gert er ráð fyrir hundrað íbúða byggð og í Sandgerði eru að hefjast framkvæmdir við byggingarsvæði ofan Stafnesvegar. 
 
Mikil þörf er á leiguhúsnæði og hefur Sandgerði gert samning við Húsnæðisfélagið Bjarg um byggingu leiguíbúða fyrir tekjulægri íbúa. Áætlað er að framkvæmdir við byggingu fimm íbúða raðhúsi hefjist í haust. Vilji er fyrir frekari samstarfi við Húsnæðisfélagið Bjarg um frekari uppbyggingu leiguíbúða til að mæta þörf á fjölbreyttara húsnæðisformi. 
 
Kæru íbúar
 
Við viljum vinna með ykkur og skapa öflugt samfélag með hag okkar allra að leiðarljósi.
 
Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
Skipar 2. sæti á D listi Sjálfstæðismanna og óháðra í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024