Aðsent

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar: Íbúar í álögum – Báknið vex
Mánudagur 2. desember 2019 kl. 08:32

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar: Íbúar í álögum – Báknið vex

Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2020. Það sem vekur mesta athygli við áherslur meirihluta bæjarstjórnar; Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknar er mikil hækkun til stjórnsýslusviðs bæjarins.

Hækkunin er upp á 40 milljónir króna milli ára og er rekstur þess nú komin í 84 milljónir á ári. Laun sjö sviðsstjóra eru hækkuð um 8,9% eða 122 þúsund og eru þá orðin 1420 þúsund krónur á mánuði, er það nokkuð vel í lagt. Á sama tíma gerir hið opinbera ráð fyrir því að laun ríkisstarfsmanna, þar með talið stóru kvennastéttanna, hækki ekki umfram 3,8%. Stöðugildum hefur verið fjölgað í stjórnsýslu bæjarins og má þar nefna nýtt starf aðstoðarmanns bæjarstjóra sem kostar 11,4 milljónir á ári, svo dæmi sé tekið. Nefndum er fjölgað og eykst kostnaðurinn vegna þeirra um 14,7 milljónir. Stöðugt er því bætt í embættismannabáknið í Reykjanesbæ með tilheyrandi útgjöldum á sama tíma og álögur á bæjarbúa eru í hæstu hæðum. Innleiðing rafrænnar stjórnsýslu kostar fimmtán milljónir króna. Ætla má að það hefði í för með sér sparnað fyrir bæjarfélagið og fækkun stöðugilda á bæjarskrifstofu, en raunin er þó greinilega önnur. Ekkert bólar síðan á stóra kosningaloforði Framsóknar að hækka laun kennara. Fasteignagjöldin eru þau hæstu á landsvísu og eru orðin verulega íþyngjandi fyrir margar fjölskyldur. Nýta hefði átt hluta af rúmlega fjögurra milljarða króna greiðslu sem bæjarsjóður fékk vegna svokallaðs Magma-skuldabréfs til lækkunar á fasteignagjöldum. Reykjanesbær gefur sig út fyrir að vera fjölskylduvænt bæjarfélag, það getur hins vegar tæplega talist fjölskylduvænt að vera með hæstu fasteignagjöldin á landinu, auk þess sem það dregur úr áhuga fólks að flytja í bæjarfélagið. Það á að vera forgangsmál að lækka álögur á bæjarbúa. Það er hins vegar ekki efst á vinsældalista meirihlutans, þess sjást glöggt merki í fjárhagsáætlun.

Margrét Þórarinsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins
í Reykjanesbæ.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024