Aðsent

Er þér alveg sama?
Fimmtudagur 31. maí 2018 kl. 17:00

Er þér alveg sama?

Kæri íbúi Reykjanesbæjar!
Fjarvera þín á kjörstað vakti ómælda athygli um allt land. Það er erfitt að ráða í þau skilaboð því skilaboðin eru algjör þögn og ekki einu sinni hægt að ráða í andlitsdrætti til að reyna að skilja. Einhverjir munu segja að þetta sé óánægja með stjórnmál almennt eða doði fyrir málefnunum. Aðrir munu segja að allir stjórnmálamenn séu vitleysingar eða að engu hafi þurft að breyta.

Í okkar tilfelli var þó full ástæða til að mæta á kjörstað og hafa áhrif. Aldrei hafa fleiri verið í framboði og því algjört dauðafæri til að koma nýju fólki til áhrifa í samfélaginu. Þetta áhugaleysi bæjarbúa vekur upp vangaveltur um hið háværa ákall um meiri þátttöku íbúa í ákvarðanatöku. Kjörsóknin styður ekki þetta ákall og þátttaka í ýmsu íbúakosningum undanfarið sýna ekki sterkan vilja fyrir því að láta í sér heyra. Nýjasta dæmið er kosning um nafn á sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis þar sem einungis um 20% tóku þátt og heil 6% eru á bak við nafnið sem flest atkvæði fékk.

Public deli
Public deli

Flest sveitarfélög og þar á meðal Reykjanesbær hafa svarað öðru ákalli um aukið gagnsæi og sett ýmis gögn á sínar vefsíður til upplýsingar fyrir bæjarbúa og aðra. Umferðin inn á þessar síðar er enn verulega lítil en væntanlega tekur einhvern tíma fyrir almenning að átta sig á þessu.

Ég hef verið bæjarfulltrúi í 8 ár og fékk kosningu til áframhaldandi setu í bæjarstjórn. Ég styð heilshugar að íbúar láti í sér heyra varðandi öll málefni sem brenna á þeim og séu virkari í að taka þátt í að byggja upp betra samfélag. Við erum greinilega ekki enn búin að finna bestu leiðina til að virkja íbúalýðræðið en það er mesti misskilningur að gífuryrtir statusar á Facebook færi okkur nær því takmarki. Á þeim vettvangi vantar oft dýptina í umræðurnar og málefnin eru ekki krufin. Persónur eru hins vegar oft krufnar hvort sem þær eru lífs eða liðnar. Facebook er oft eins og risavaxin kaffistofa eða fermingarveisla þar sem tuðið fær að grassera á ógnarhraða.

Ég vil bara segja eitt að lokum kæri íbúi: Láttu heyra í þér.

Baldur Guðmundsson
bæjarfulltrúi.