Verne Global Atvinna
Verne Global Atvinna

Aðsent

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?
Fimmtudagur 23. september 2021 kl. 09:33

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Á laugardaginn kemur munu kjósendur einmitt svara þessari spurningu og er það mín von að svarið verði jákvætt. Á undanförnum árum hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að starfa í bæjarstjórn fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Ég sækist nú eftir því að nýta krafta mína á þingi fyrir svæðið og kjördæmið allt. Störfum mínum hef ég sinnt af heilindum og dugnaði enda mjög mikilvægt að gæta hagsmuna íbúa, leiða mál til sátta og hafa alltaf í huga þá staðreynd að umboðið kemur frá kjósendum.

Mikilvægt að gæta hagsmuna íbúa

Á þeim árum sem ég hef starfað í stjórnmálum hef ég tekist á við mörg krefjandi verkefni. Stærst þeirra er eflaust málefni kísilversins í Helguvík en eins og bæjarbúar vita best hafnaði Framsókn alfarið mengandi stóriðju í Helguvík og talaði ég þar skýrt þrátt fyrir umtalsverðan þrýsting frá eigendum. Þar sýndi ég og sannaði mikilvægi þess að standa með íbúum. Það er mín von að framtíðaruppbygging í Helguvík verði í sátt við íbúa og leiði af sér fjölbreytt störf hér á svæðinu. Hugmyndir af samruna Kölku og Sorpu voru einnig stoppaðar eftir að Framsókn kom inn í nýjan meirihluta. Sorpa hefur síðan lent í miklum ógöngum og eigendur þurft að leggja félaginu til háar fjárhæðir. Það reyndist því mikið gæfuspor fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum er snúið var af braut sameiningar við Sorpu.

Heilbrigðismál stóra kosningamálið

Flestir eru sammála um það að heilbrigðismálin séu eitt af stóru kosningamálunum fyrir þessar kosningar. Það er gríðarlega mikilvægur málaflokkur sem snertir okkur öll. Ég hef barist fyrir bættri heilbrigðisþjónustu um langt skeið og tel mjög mikilvægt að við endurskoðum áherslur okkar í heilbrigðismálum og horfum til fyrirbyggjandi aðgerða. Til þess þarf að efla forvarnir, heilsueflingu og heilsugæslur um land allt. Það er fagnaðarefni að ný heilsugæsla sé nú komin á dagskrá og ráðgert að framkvæmdir við hana hefjist á næsta ári. Mikilvægt er að færa þjónustuna að nýju nær íbúunum, efla teymisvinnu þvert á stofnanir og nýta fjarþjónustu í auknu mæli með þeim tækniframförum sem orðið hafa á undanförnum árum.

Jákvæð kosningabarátta

Kæri kjósandi, það hefur því miður verið raunin að stjórnmálin hafa oft tekið á sig ljóta mynd þegar líður nær kosningum. Einhverjir beita þeim brögðum að birta greinar í blöðum rétt fyrir kosningar í þeirri von að frambjóðendum gefist ekki kostur á að svara ávirðingum í sinn garð með staðreyndum. Framsókn er ekki þar. Áherslur okkar á jákvæða og uppbyggjandi  kosningabaráttu gerir vinnuna skemmtilegri og gefur okkur tækifæri til þess að leggja áherslu á okkar stefnumál og framtíðarsýn. Þegar á hólminn er komið er það umhyggjan í samfélaginu og máttur samvinnunar sem skilar okkur áfram veginn.

Jóhann Friðrik Friðriksson
Skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.