Bygg
Bygg

Aðsent

Ekki kjósa innantóm loforð!
Föstudagur 17. september 2021 kl. 11:33

Ekki kjósa innantóm loforð!

Stjórnmálafólk ryður úr sér svipuðum loforðaflaumi nú líkt og í liðnum kosningabaráttum. Þar koma fram fögur fyrirheit um betri tíð þeirra sem hvað höllustum fæti standa í þjóðfélaginu og lökustu framfærsluna hafa. Þessir pólitísku lukkuriddarar virðast sumpart skreyta sig með fjöðrum í anda Flokks fólksins.

Ekki er mikið um efndirnar sem svo fjálglega er lofað í kosningabaráttum flestra flokka. Jafnskjótt og á þing er komið og í valdastóla sest, þá virðast efndirnar gufa hljóðlega upp eins og dögg fyrir sólu.

Margt virðist vera falt fyrir feitara launaumslag og valdastóla og svo er vonað að öll loforð og fyrirheit falli í gleymskunnar dá.

Það virðist alltaf sama upp á teningnum að auðveldast er að höggva þar sem skóinn kreppir mest og hvar síst skyldi. Þegar skoðað er hverju hefur verið lofað kemur ýmislegt í ljós. Hér sést brot af því svo að eitthvað sé nefnt:

Innantóm loforð
Eldri borgarar fengu sent bréf frá Sjálfstæðisflokknum skömmu fyrir Alþingiskosningar árið 2013 og þar lofað að afnema tekjutengingu ellilífeyris. Fyrir kosningarnar árið 2017 héldu innantómu loforðin svo áfram með því að flokkurinn sagðist vilja auka aðstoð við aldraða, auka heimaþjónustu og fjölga hjúkrunarheimilum um land allt. Engar efndir.

Einnig var sett fram að krónu á móti krónu skerðingu bæri að afnema strax hjá þeim sem væru á örorkulífeyri en enn þá mega öryrkjar þola skerðingu því sem nemur 65 aurum á hverja krónu. Það eru nú öll herlegheitin og efndirnar.

Katrín Jakobsdóttir nefndi árið 2017 í umræðu um stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra að stjórnvöld ættu ekki að biðja fólk um að bíða eftir rétttlæti. Það byggi við skammarleg kjör og þjóðin þarfnaðist stjórnvalda sem treystu sér til að útrýma fátækt. Katrín komst svo til valda í kjölfar kosninganna sama ár og nú hafði hún og ríkisstjórn hennar nægan tíma til að leiðrétta þetta óréttlæti. En viljinn reyndist ekki vera fyrir hendi hjá Katrínu þegar henni var í lófa lagið að standa við stóru orðin og hún virtist ekki taka það sérstaklega nærri sér.

Afnám verðtryggingar lána til neytenda hefur komið skýrt fram frá árinu 2009 á stefnuskrá Framsóknarflokksins. Hins vegar þegar þingkonan Inga Sæland lagði fram breytingartillögu við frumvarp um breytingu á lögum varðandi fasteignalán til neytenda sem unnin var í samvinnu við Hagsmunasamtök heimilinna undir síðastliðin þinglok, greiddu allir viðstaddir þingmenn flokksins atkvæði gegn tillögunni.

Þegar rýnt er í fyrrnefnd loforð gefur það ekki góða tilfinningu um að nú skuli loksins verða staðið við stóru orðin. Það eru efndirnar sem skipta öllu þegar allt kemur til alls en ekki fagurlega skreytt hugmyndafræði í söluumbúðum í stefnuskrám stjórnmálaflokka.

Brjótum múra – bætum kjörin!

Flokkur fólksins mun berjast af alefli fyrir því að koma á nýju almannatryggingakerfi sem tryggir lágmarksframfærslu að upphæð 350.000 krónur, skatta og skerðingalaust. Við krefjumst þess að afnumdar verði skerðingar á atvinnutekjum eldri borgara, öryrkja og námsmanna.

Settu X við F fyrir þína framtíð!

Sigrún Berglind Grétarsdóttir.

Höfundur skipar 4. sætið á framboðslista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.