Blómasala Æsu
Blómasala Æsu

Aðsent

Eiturefnahernaður á íbúa Reykjanesbæjar
Mánudagur 30. september 2019 kl. 08:53

Eiturefnahernaður á íbúa Reykjanesbæjar

Eiturefnahernaður á íbúa Reykjanesbæjar lýsir best fyrirhugaðri áætlun stjórnar Arion banka um að hefja aftur rekstur kísilverksmiðjunnar‚ sem þeir sitja uppi með í Helguvík. Þeir voru óafvitandi þátttakendur í sama athæfi 2016–2017. Voru plataðir til þess eins og fleiri‚ en þrátt fyrir þá reynslu og mun meiri þekkingu nú á umhverfisvá  starfseminar eru þeir staðráðnir í að hefja eiturefna árásina aftur á næsta ári.

Krónísk kolamengun
– líka í Reykjanesbæ

Nýjar og nákvæmari upplýsingar um enn alvarlegri afleiðingar kolabrennslu í heiminum en áður var talið hafa verið að koma fram undanfarin misseri.  Ný úttekt  „Krónísk kolamengun“ (Chronic Coal Pollution), um hinar alvarlegu afleiðingar kolabrennslu, var gefin út 19. febrúar 2019 af The Health and Environment Alliance (HEAL). www.env-health.org/wp-content/uploads/2019/02/Chronic-Coal-Pollution-report.pdf.

Þar kemur fram að mengunar- og eitrunaráhrifa, gætir á alvarlegu stigi í öllum löndum Evrópu, sérstaklega þar sem kol eru brennd í miklu magni í nágrenni við íbúabyggð.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur nýlega upplýst að heilsufarslegra áhrifa gætir við mun minni styrk mengunarefna en áður var talið og að þeirra gætir einnig á mun stærra svæði en talið hefur verið hingað til.  Hvað svifryk varðar (particulate matter/PM/öragnir) skiptir ekki máli hvað magnið er lítið.  Þar er ekkert áhrifalaust lágmark. Varanleg loftmengun mikil eða lítil hefur áhrif á heilsu fólks bæði til skamms og langs tíma.

Nokkrar miður fallegar upplýsingar um hvernig kolabrennsla skaðar heilsu almennings

Með aukinni þekkingu og tækni við rannsóknir vísindamanna koma stöðugt í ljós nýjar afleiðingar loftmengunar á heilsu fólks. Til dæmis eru auknar vísbendingar sem tengja loftmengun við heilabilun og nýjar vísbendingar hafa sýnt að loftmengunar öragnir (svifryk) fara um lungu barnshafandi kvenna í fylgjur þeirra og skaða börnin áður en þau fæðast.

Þegar kol eru brennd, eru mest rannsökuðu þrjú skaðlegu mengunarefnin á heilsu manna Brennisteinsdíoxíð (SO2), Köfnunarefnisoxíð (NOx) og svifrik eða öragnir í andrúmsloftinu (particulate matter, skamstafað PM). Þessi mengunarefni eru samkvæmt nýjustu rannsóknum einnig skaðleg í litlu mæli, jafnframt undir núgildandi viðmiðunarmörkum reglugerða.

Brennisteinsdíoxíð (SO2) er flokkað sem mjög eitrað efni við innöndun. Það getur valdið alvarlegri ertingu í nefi og hálsi. Hár styrkur getur valdið lífshættulegri uppsöfnun vökva í lungum (lungnabjúg). Einkenni geta verið hósti‚  mæði, erfið öndun og þyngsli í brjósti. Jafnvel ein aðkoma með miklum styrk SO2 getur valdið langvarandi ofnæmisástandi eins og astma.

Köfnunarefnisoxíð (NOx) eru lofttegundir sem valda bólgum í öndunarvegi. Þetta eru oxunarefni sem þýðir að þau valda oxunarálagi sem getur raskað eðlilegum frumukerfum og valdið skemmdum á vefjum og dregið úr ónæmisgetu líkamans.

Svifryk/öragnir.  Við innöndun komast öragnirnar í blóðrásina og valda skaða í lungum og hjarta. Þær geta valdið heilablóðfalli og leitt til ótímabærs dauða. Nýjar rannsóknir tengja einnig ýmis efnasambönd við skaða á heilbrigðum þroska barna og við  sjúkdóma eins og offitu og Alzheimers. Innöndun svifryks, jafnvel í litlu magni, getur leitt til lífeðlisfræðilegra breytinga í líkamanum og skaðað heilsu fólks. Léleg loftgæði eru einnig tengd langvinnum og bráðum öndunarfærasjúkdómum, sem lækka lífsgæði verulega, svo sem berkjubólgu og aukningu astma áhrifa.

Eiturefnaherferð á 20 þúsund manna íbúðabyggð

Ef einhver fer með eitur á mann svo hann veikist‚ verður örkumla eða deyr‚ er það saknæmt athæfi. Sérstaklega ef það er af ásetningi eða tillitsleysi.  Ótrúlegt er að stjórn Arion banka muni af einskæru tillitsleysi í garð íbúa Reykjanesbæjar hafa uppi þann ásetning að hefja eiturefnahernað á bæjarbúa á næsta ári.  Lögmenn tala oft um einbeittan brotavilja í svona tilfellum.

Kolabrennslan sem fyrirhuguð er hjá kísilveri Stakksbergs, að undirlagi stjórnar Arion banka kallar á að bæjarbúar samræmi viðbrögð sín þegar þar að kemur. Stefni á að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort 5 manna stjórn í fjármálafyrirtæki geti lögformlega hafið eiturefnaherferð á u.þ.b. 20 þúsund manna íbúabyggð og hafa þann eina tilgang að græða peninga á því.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að ekkert loftmengunarstig geti talist „öruggt“ og að tengingin milli loftmengunar og öndunar- og æðasjúkdóma sé vel þekkt. Viðurkennt er af heilbrigðis og umhverfis sérfræðingum‚ er um málið véla‚ að loftgæði í bæjarfélaginu munu versna þegar að kolabrennslan hefst.  Eitur áhrifin‚ sem nú er sýnt að eru mun alvarlegri en áður var talið og bæjarbúar fundu á eigin skinni á fyrra rekstrar tímabili kísilversins setur byr í segl málsóknar.  Stjórn Arion banka verður hinsvegar í saknæmri stöðu þegar eitur áhrifin fara að skaða og jafnvel deyða einhverja bæjarbúa.

Reykjanesbæ 24. september 2019,
Tómas Láruson.