Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Eigum við að sameina meira, eða hvað?
Laugardagur 11. desember 2021 kl. 06:00

Eigum við að sameina meira, eða hvað?

Sameiningarmál sveitarfélaga eru oft til umræðu og ýmsar hugmyndir skjóta upp kollinum í þeim efnum. Ég er í hópi þeirra sem eru fylgjandi sameiningu sem getur leitt til hagræðingar og öflugra sveitarfélags fyrir íbúana. Sameining Garðs og Sandgerðis í Suðurnesjabæ hefur væntanlega tekist vel að ýmsu leyti, þó mögulega megi gera betur á sumum sviðum. Næsta vor lýkur fyrsta kjörtímabili okkar sameinaða sveitarfélags og það væri fróðlegt fyrir íbúana og einnig fyrir bæjarstjórn að fá samanburðargreiningu á helstu rekstrarþáttum og fleiri breytingum, fyrir og eftir sameiningu. Slík greining gæti einnig verið gott veganesti fyrir þá bæjarstjórn sem kjörin verður á vormánuðum 2022. 

Samanburðargreining gæti tekið til ýmissa þátta, svo sem til breytinga á tekjum, breytinga á tekjum per íbúa, launabreytinga í hlutfalli af tekjum, breytinga á skuldum, breytinga á skuldum per íbúa, skuldahlutfalls, breytinga á starfsmannafjölda, breytinga á verk- og vinnuskipulagi, framkvæmdum og fleiru sem ástæða þætti til að bera saman og gæti varpað góðu ljósi á hagræðingu sameiningarinnar og hvar má betur gera. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjá bæjarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi er eflaust í mörg horn að líta og þar af leiðandi þurfa sum verkefni að bíða til betri tíma. Sem áhugasamur íbúi fyrir velferð og framgangi bæjarins okkar hef ég reynt að fylgjast með gangi mála. Sumt hefur vakið athygli mína meira en annað og þar nefni ég meðal annars umhverfismálin. Vonandi verður sá málaflokkur í forgangi á næsta kjörtímabili. Sérstakt umhverfisráð verði skipað áhugasömu fólki og með sameiginlegu átaki geta stjórnendur bæjarins og íbúarnir gert Suðurnesjabæ að snyrtilegasta bæjarfélagi landsins. Við eigum að stefna hátt á öllum sviðum. 

Við þurfum einnig að hugsa lengra fram í tímann. Á næsta kjörtímabili gæti verið tímabært að huga að frekari sameiningarmálum. Viðræður um stærra sveitarfélag með sameiningu Suðurnesjabæjar, Reykjanesbæjar og Voga (til að byrja með) er mögulega rétt skref til að efla sveitarstjórnarstigið hér á Suðurnesjum. Viðræður geta ekki skaðað og eru oftast nær til góðs. Ég veit að það eru skiptar skoðanir um sameiningarmál en það er gott að vera með opinn huga ef athuganir leiða í ljós að kostir eru meiri en mögulegir gallar sem auðvelt væri að laga.

Í Suðurnesjabæ myndi ég vilja sjá bæjarfulltrúa vera sýnilegri og taka meiri þátt í opinberri umræðu um málefni sveitarfélagsins, til dæmis á Facebook þar sem margir íbúar fylgjast með. Einnig mættu upplýsingar frá þeim sem stjórna daglegum rekstri bæjarins vera meiri, til dæmis að birta framkvæmdaáætlun og fleira sem eðlilegt er að upplýsa bæjarbúa um. Eins og áður kemur fram í þessari grein þá er stutt í næstu sveitarstjórnarkosningar, aðeins um sex mánuðir. Ég er mikið á ferðinni um bæinn ýmist gangandi, hjólandi eða akandi, þó meira Sandgerðismegin. Fyrir nokkrum vikum datt mér í hug að gera óformlega könnun og ég lagði fyrir fólk á ýmsum aldri spurninguna: „Veist þú hvaða fólk er í bæjarstjórn?“ Niðurstöðurnar komu mér ekkert sérstaklega á óvart. Af rúmlega 50 manns sem ég spurði voru aðeins fjórir sem gátu talið upp alla níu bæjarfulltrúana. Flestir mundu eftir Fríðu Stefánsdóttur, formanni bæjarráðs, Einari Jóni Pálssyni, forseta bæjarstjórnar, og Hólmfríði Skarphéðinsdóttur, bæjarfulltrúa. Aðrir bæjarfulltrúar voru mun sjaldnar nefndir. Kannski gætu þetta verið skilaboð til þeirra sem vilja halda áfram í bæjarmálunum, um að láta ljós sitt skína aðeins skærar. 

Að endingu þetta. Ég sendi öllum mínar bestu kærleiks- og jólakveðjur með von um gleði og gæfu á komandi ári. Lífið heldur áfram þó við lifum óvenjulega tíma núna.

Jón Norðfjörð,
fyrrverandi slökkviliðsstjóri.