Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Eiga sveitarstjórnarmál að spanna flokkspólitískt litróf stjórnmálanna?
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 13:36

Eiga sveitarstjórnarmál að spanna flokkspólitískt litróf stjórnmálanna?

Ritari hefur lengi velt því fyrir sér hvort málefni sveitarfélaga eigi nokkuð skylt við flokkspólitískt litróf stjórnmálanna í þeirri mynd að á bak við hið pólitíska starf býr gjarnan hugmyndafræði sem tengist kennisetningum byggðum á trúfræði og heimspeki. Málefni sveitafélaganna byggir hins vegar á þörfum einstaklinga sem dvelja í sveitarfélaginu hverju sinni án pólitískra skírskotanna. Því veltir maður fyrir sér hvort ekki væri hollara að auglýsa eftir hæfu fagfólki til að sinna þeim störfum sem sveitarstjórnarmál krefjast? Á móti kemur er afar áhugavert að rýna í málefnaskrá leiðtoga þeirra 8 flokka sem nú bjóða sig fram hér í Reykjanesbæ og bera innbyrðis saman. Sýnist manni mikill samhljómur ríkja þar á milli. Allt það sem fram kemur rúmast undir framúrskarandi vel útfærðri málefnaskrá Sjálfstæðisflokksins.

Þar sem sveitastjórnarmál fjalla um nærumhverfi einstaklingsins eru kosningar gjarnan tilfinningaþrungnar eins og dæmin sanna. Mótrökin fyrir þessum annars áleitnu vangaveltum er sú staðreynd að margir frambærilegir einstaklingar birtast og leggja ómælda vinnu í að fylgja eftir sínum hugsjónum. Kosningaundirbúningur er þannig krefjandi en á sama tíma skemmtilegur, sem hann ekki yrði ef í stað kosninga færi fram ráðningaferli embættismanna sem í eðli sínu gæti skapað illhreyfanlegan massa sem lifði eigin lífi. Er það ekki annars stjórnmálamannanna að marka stefnuna og embættismannanna að fylgja henni eftir?

Suðurnesjamenn hafa löngum deilt á framlög þeirra úr sameiginlegum sjóðum og talið sig fara halloka. Nægir þar að telja framlög til heilbrigðismála, vegamála og hafnarmála. Sú fordæmalausa aukning íbúa sem orðið hefur á svæðinu og mun halda áfram að óbreyttu kallar á mikla árvekni og samningatækni í viðskiptum við hið opinbera. Sagt er að lykil hlutverk oddvita sveitastjórnar sé að vera í snjallsímasambandi við ráðherra til að ýta málum áfram. Slíkur oddviti þarf því að hafa til brunns að bera alúðlega framkomu, lipurð og snjalla samningatækni til að ná framgangi. Mér sýnist hann fundinn í röðum sjálfstæðismanna.

Konráð Lúðvíksson
læknir.

Public deli
Public deli