Aðsent

Ég elska snjó
Fimmtudagur 7. febrúar 2019 kl. 09:51

Ég elska snjó

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Snjór í janúar hefur sömu áhrif á mannlífið og góðir sólardagar hafa í júní. Allt verður bjartara, fallegra og skemmtilegra. Börnin fara út að leika og það er erfitt að ná þeim inn í kvöldmat, það er bara of gaman úti. Alveg eins og þegar við vorum krakkar. Engar tölvur, bara snjóþota og brekka – og málið er dautt

Allt er svo hreint og fínt, bjart og tært.  Alveg eins og þegar við vorum krakkar. Rauðar kinnar, kaldar tær og frosnir lopavettlingar. Og svo auðvitað heitt kakó þegar inn var komið. Við renndum okkur í skrúðgarðinum, nú hafa aðrar brekkur tekið við, en stemningin er sú sama. Og ennþá er fyrsta reglan auðvitað sú að það er bannað að borða gulan snjó.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ferðamennirnir elska snjóinn líka og einhvern tímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að einhvern myndi í alvöru langa að koma hingað til lands að vetri til. En nú koma ferðamenn hingað gagngert til að upplifa snjó og vetur, eins og vinkona mín frá Singapore sem kom í heimsókn með fjölskylduna sína fyrir tveimur árum til að sýna drengjunum sínum snjó. Það var stórkostleg upplifun fyrir þá og jafnvel enn skemmtilegra fyrir okkur hin að verða vitni að því. Setningin sem lýsir upplifuninni best er án efa: „Look mom … it even snows on the plants!“

Lubba finnst snjórinn líka sjúklega frábær og gönguferðirnar okkar eru sérstaklega skemmtilegar þessa dagana. Hann þreytist ekki á að elta fallandi snjókornin og stingur sér á bólakaf í skaflana. En það er eitt sem skyggir á upplifunina hjá okkur og það eru endalausu breiðurnar af hundaskít sem skildar eru eftir út um allan bæ og eru sérstaklega áberandi á hvítum snjónum. Þetta er einfaldlega ógeðslegt! Ég hef áður nefnt það á þessum vettvangi, en ég ætla að segja það aftur: „Þeir sem geta ekki þrifið upp skítinn eftir hundana sína eiga bara ekkert með að halda hund!“  

Snjórinn er æðislegur og hefur marga góða eiginleika. En þið, kæru hundaeigendur sem komið óorði á okkur hina, snjórinn býr ekki yfir þeim eiginleika að láta kúkinn hverfa. Pokar og ruslafötur gera það hinsvegar.  En á meðan þetta er svona er regla númer tvö auðvitað sú að það er líka bannað að borða brúnan snjó!