Nettó
Nettó

Aðsent

Burt með allan kísiliðnað úr Helguvík
Fimmtudagur 24. maí 2018 kl. 22:42

Burt með allan kísiliðnað úr Helguvík

Ný bæjarstjórn verður að breyta deiliskipulagi í Helguvík og leggja til bann við  mengandi stóriðju.  Íbúar verða að fá að kjósa um breytingu á skipulaginu í bindandi kosningu.
 
Í mörg ár hef ég barist af krafti gegn kísilverksmiðjum í Helguvík. Ég hélt íbúafundi, skipulagði mótmæli og fór af stað með undirskriftarlista til að knýja fram íbúakosningu. Ég hef barist gegn þessum mengandi iðnaði vegna þess að ég vil ekki fórna náttúru og heilsu minni né  samborgara um ókomna tíð. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og hún er ekki til sölu. Framtíðin liggur í ósnertri náttúru, heilsusamlegu andrúmslofti og hreinu vatni.  
 
Mengandi iðnaður mengar alltaf
Kísilver United Silicon er málefni sem mikið er rætt í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í Reykjanesbæ. United Silicon er skólabókardæmi um hvernig ekki skal gera hlutina, og afleiðingarnar skelfilegar fyrir alla sem að komu en fyrst og síðast fyrir bæjarbúa, sem m.a þurftu að líða mikla mengun þann stutta tíma sem kísilverið var í rekstri.
    
Í þessum kosningum virðast margir framboðslistar vera á móti  kísilverinu, en það þarf meira en orð á blaði, það þarf að sýna dug og þor að taka skrefið alla leið. Það þarf að stöðva reksturinn fyrir fullt og allt. Eflaust gera menn sér í hugarlund að mengunarslysið á síðasta ári hafi verið mistök í framleiðslu sem hægt verði að koma í veg fyrir með betri mengunarvörnum. Staðreyndin er sú að mengandi stóriðja er mengandi stóriðja hvernig sem hún er matreidd.   
 
Íbúakosning eða skoðunarkönnun
Flest framboð í Reykjanesbæ tala um að hér verði íbúakosning um framtíðarskipulag Helguvíkursvæðisins, en hún verði skv. lögum ekki bindandi kosning og því alfarið undir bæjaryfirvöldum komið hvort unnið sé í takti við niðurstöðu kosningar.  
 
Íbúakosning sem er ekki bindandi er gagnlaus að mínu mati, hún er í raun bara kostnaðarsöm skoðunarkönnun.    
 
Í 107. gr. sveitarstjórnarlaga um íbúakosningar segir; „Sveitarstjórn ákveður hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa um einstök málefni.  Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein, sem og 108. gr., er ráðgefandi nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils”. Það er því villandi og beinlínis rangt að tala um að íbúakosning geti ekki verið bindandi, allt sem þarf er vilji bæjaryfirvalda að hlusta og fara eftir vilja íbúa. Nærtækt dæmi er þegar Hafnarfjarðarbær fór í íbúakosningu hér um árið,  um hvort leyfa skyldi stækkun álversins við Straumsvík og niðurstaðan var að íbúar höfnuðu þeirri stækkun. Þarna var bæjarstjórn sem þorði að taka mark á vilja íbúanna. 
 
Ekki gleyma Thorsil 
Allt virðist stefna í aðra risavaxna kísiliðju við hliðina á United Silicon kísilverinu. Það furðar mig að menn skorti vilja og þor til að láta hér staðar numið í ljósi fyrri reynslu.  
 
Ekki byrjar Thorsil ævintýrið vel; í lóðasamningi sem Reykjanesbær og Thorsil undirrituðu árið 2014, kemur fram að ef vanskil verði vegna greiðslu á gatnagerðargjöldum skv. gr. 3.1, þá hefur Reykjaneshöfn heimild til að rifta samningum í heild sinni einhliða. Það er skemmst frá því að segja að ítrekað hafa bæjaryfirvöld gefið frest á greiðslu. Þetta segir mér að stóriðjuvitleysan heldur áfram í Helguvík. Það er sannarlega mikil vonbrigði. 
 
Framtíðin er vistvæn og Vinstri græn
„Kálver í stað álvers“, var einu sinni sprenghlægileg hugmynd en sýnir sig nú meira og meira að í breyttum heimi er matvælaframleiðsla atvinnugrein framtíðarinnar.
  
Ég sé fyrir mér Helguvík sem fallegt útivistarsvæði og jafnvel tjaldstæði þar sem göngu- og hjólreiðarbrautir tengja svæðið frá höfninni inn í miðbæ Reykjanesbæjar. 
 
Skip sem fylgja hertum reglum um hreinsibúnað og bruna svartolíu, gætu bætt fjárhagsstöðu hafnarinnar með því að tengja sig við rafmagn. Ferðamenn í göngufæri við miðbæinn væri velkomin lyftistöng fyrir verslun og þjónustu bæjarins.  
 
Við verðum að sýna hugrekki til að leiða bæinn okkar inn í nýja tíma, þar sem skýr framtíðarsýn og vistvæn stefna fara hönd í hönd og náttúran og mannfólkið fái alltaf að vera í fyrirrúmi. 
 
Dagný Alda Steinsdóttir
1. sæti VG í Reykjanesbæ
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs